Leggjumst stundum niður og reynum að loka leiðum

Valsarinn Birkir Heimisson gegn KR.
Valsarinn Birkir Heimisson gegn KR. Mbl.is/Óttar Geirsson

„Við leggjumst stundum niður og reynum að loka öllum leiðum og það gekk bara fínt,“ sagði Birkir Heimisson sem skoraði fyrra mark Vals og átti fínan leik á miðjunni þegar Valur vann Stjörnuna 2:0 að Hlíðarenda í kvöld þegar leikið var í fyrstu umferð efri hluta efstu deildar karla í fótbolta.

Garðbæingar létu Valsmenn vinna fyrir kaupinu og Birkir telur sína menn hafa gert það.  „Við höfðum jú mikið fyrir þessum stigum en áttum samt sjálfir ágæta kafla á milli þar sem við héldum boltanum vel en við leyfðum þeim stundum að vera með boltann aðeins of lengi, mér fannst við samt vera með stjórn á leiknum.  Við ætlum okkur að vinna alla leikina í þessari úrslitakeppni og klára mótið sterkt, ná öðru sætinu með alvöru,“ bætti Birkir við.

Fannst hinir ívið betri

Valsarinn Tryggvi Hrafn Haraldsson stóð líka í ströngu.  „Ég er bara sáttur með sigurinn, sérstaklega vegna þess hve við náðum að vera með þétta vörn og halda hreinu, svo ég held að þetta hafi verið ágætis frammistaða heilt yfir.  Þeir sóttu á okkur og mér fannst þeir ívið betri, sérstaklega í fyrri hluta fyrri hálfleik þegar við erum í basli með að spila út og þeir ná að spila auðveldlega í gegnum okkur án þess þó að skapa sér mikið af færum.  Við verjumst mikið og gerum það vel og náum svo að skora í lok fyrri hálfleiks.  Mér fannst við síðan þéttir í seinni hálfleik og ég hafði engar áhyggjur þannig séð en þeir sóttu vissulega mikið á okkur,“ sagði Tryggvi Hrafn sem á möguleika á markakóngstitli. „Ég er ekkert að spá í markakóngstitil, bara að safna eins mikið af stigum og við getum í þessum síðustu fjórum leikjum til að enda þetta mót vel.“

Fullmikið að gera hjá mér

Sveinn Sigurður Jóhannesson stóð á milli stanganna hjá Val eins og síðasta leik og skilaði sínu. „Mér fannst fullmikið að gera hjá mér í markinu en við stóðum þetta af okkur gegn góðu liði Stjörnunnar í dag en sigurinn byggðist á frammistöðu liðsins þar sem allir börðust fyrir hvern annan, sem var frábært.  Við ætluðum að pressa í byrjun en svo þurftum við að bakka en þetta snýst allt um að nýta færin sín og við nýttum okkar í dag, sem skiptir máli að lokum,“  sagði markmaðurinn.  

mbl.is