Sást að við ætluðum að vinna þennan leik

Aldís Guðlaugsdóttir markvörður FH grípur boltann.
Aldís Guðlaugsdóttir markvörður FH grípur boltann. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum með sigur í huga og ætluðum allan daginn að vinna þennan leik,“  sagði Aldís Guðlaugsdóttir markmaður FH, sem stóð í ströngu gegn Íslandsmeisturum Vals að Hlíðarenda í dag þegar leikið var í efri hluta efstu deildar kvenna í fótbolta en varð að sjá sig sigraða í 3:1 tapi.

„Við ætluðum að vinna svo það sást að en það er erfitt á móti svona sterku og góðu liði en mér finnst samt eins og við höfum gefið þeim sterkan leik svo þær þurftu að vinna fyrir sínu.  Mér fannst þegar á leið að leikurinn væri svona fram og til baka, við að negla boltanum fram og sama gerist hinu megin, við missum svo boltann þegar við missum hann á okkar helming, sem er algengt þegar pressan í leiknum er orðin meiri.“

Ætluðum að vera grimmar

Colleen Kennedy átti góðan leik í vörn FH og var sátt við sitt lið, sem hélt sínu skipulagi. „Ég bjóst í alvöru alveg við og það gerðist að í fyrri hálfleik að allt var samkvæmt því sem við lögðum upp með þegar við ætlum að vera grimmar og förum ekki að breyta okkar leikskipulagi, sama hvað hitt liðið ætlar að gera og það gerðum við vel. Því miður fáum við á okkur þessi mörk í síðari hálfleik, eftir aukaspyrnu og svoleiðis, en í heildina er ég stolt af liði okkar, við gerðum allt eins og við ætluðum okkur og varamennirnir sem komu inná gerðu líka sitt.   Það dugði bara ekki til,“ sagði Colleen.

Valskonur hafa staðið í ströngu að undanförnu með mörgum leikjum og löngu ferðalagi en Colleen var ekkert að taka það með í reikninginn. „Ég spáði ekkert í því, kem bara í hvern leik til að gera allt sem ég get gert.  Við þekkjum leik Vals og við vissum af því svo okkar markmið var að gera betur en Valur, sem við gerðum í fyrri hálfleik og ég vildi að við hefðum fengið fleiri færi í seinni hálfleik.“

mbl.is