„Leikurinn var mjög vel spilaður af okkar hálfu,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason, framherji FH, í samtali við mbl.is eftir 2:0-útisigur liðsins á Breiðabliki í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.
Leikurinn var liður í fyrstu umferð efri hlutans, en FH vann einmitt 2:0-sigur á sama velli fyrir tveimur vikum í síðustu umferðinni fyrir skiptingu deildarinnar.
„Við gerðum allt það sem við vorum búnir að tala um. Við spiluðum við þá fyrir tveimur vikum síðan og það var smá skrítið að koma aftur og ætla að reyna að endurtaka frábæra frammistöðu.
Við þurfum að æfa vel í fríinu og koma okkur niður á jörðina. Við skiluðum góðri frammistöðu. Okkur líður ágætlega hér og við höfum átt góða leiki gegn Breiðabliki. Við virðumst vera með einhverja formúlu gegn þeim,“ sagði Kjartan.
Alls litu níu gul spjöld dagsins ljós í kvöld, þrátt fyrir að ekki hafi verið um grófan leik að ræða.
„Mér fannst Erlendur, sem er toppdómari, gera þetta mjög vel. Hann leyfði slatta í fyrri hálfleik. Þetta eru þannig leikir að það er stutt á milli. Mér fannst hann halda flæðinu mjög vel og ég hef ekkert út á það að setja,“ sagði hann.
FH er í fjórða sæti með 37 stig, aðeins einu stigi á eftir Breiðabliki, en fjögur efstu sætin keppa í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
„Nú eru fjórir leikir eftir og einn af þessum úrslitaleikjum eru búnir. Þetta er fín byrjun og við horfum bara upp. Við erum aldrei litlir, við horfum upp og gerum eins vel og við getum.“
Kjartan Kári Halldórsson, nafni og liðsfélagi sóknarmannsins, fór af velli með sjúkrabíl eftir harkalegt samstuð við Anton Ara Einarsson í marki Breiðabliks um miðjan fyrri hálfleik. Fékk hann aðhlynningu í um 20 mínútur á vellinum, áður en hann var fluttur á sjúkrahús.
„Það var ömurlegt að sjá. Maður hafði áhyggjur af þessu. Ég var ofan í honum og mér þykir ótrúlega vænt um nafna. Mér skilst og ég vona innilega að það sé allt í lagi. Hann var í góðum höndum og fékk frábæra hjálp frá sjúkraþjálfara Breiðabliks og svo okkar.
Þeir voru með allt á hreinu. Það var fínt að hringja á sjúkrabíl og ekki taka neina sénsa þegar að um höfuðmeiðsli er að ræða. Hann var með meðvitund og það var gott að fá fagfólk til að sjá um hann. Við tökum vel á móti honum þegar hann kemur til baka,“ sagði Kjartan um Kjartan.