Við þurfum að passa að gera ekki mistök

Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis.
Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis. Ottar Geirsson

Fylkir fékk ÍBV í heimsókn í fyrstu umferð í neðri hlutanum í Bestu deild karla. Leiknum lauk 2:2 og var Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, svekktur í viðtali við Mbl.is í lok leiks með tvö töpuð stig í fallbaráttunni.

„Þetta er bara svekkjandi. Mér fannst við vera með leikinn en svo upp úr þurru skora þeir úr föstu leikatriði og svo aftur annað. Mér fannst við betri heilt yfir þótt þeir hafi átt sína kafla. Við fengum mörg hörkufæri en ég hefði viljað taka þrjú stig en úr því sem komið var þá var mikilvægt að tapa ekki.“

Tvö mörk á stuttum kafla

Fylkismenn voru með yfirhöndina í leiknum en glötuðu eins marks forskoti niður í seinni hálfleiknum þegar þeir fengu á sig tvö mörk á 12 mínútna kafla.

Varamaðurinn Þóroddur Víkingsson bjargaði stigi fyrir Fylki þegar hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í sinni fyrstu snertingu í leiknum. Ragnar segir að þetta megi samt ekki koma fyrir aftur.

„Við megum ekki slökkva á okkur í eina sekúndu í svona leikjum, en við vitum þetta og höfum brennt okkur á því í sumar áður. Við þurfum að passa að gera ekki mistök varnarlega, þá sem lið, og halda áfram að skapa okkur þessi færi sem við höfum verið að gera. Við sköpuðum okkur meira í dag en við höfum verið að gera í síðustu leikjum. Ég var ánægður með það.“

Að lokum segir Ragnar að stemningin í hópnum sé góð og hann sé spenntur að spila næstu leiki. „Það er mjög góð stemning. Þetta er spennandi. Alltaf gaman að spila leiki sem skipta máli, þar sem það er mikið undir. Allir brattir að tryggja sæti í deildinni á næsta ári.“

mbl.is