Ásgeir Börkur leggur skóna á hilluna

Ásgeir Börkur Ásgeirsson í leik með Fylki á síðasta tímabili.
Ásgeir Börkur Ásgeirsson í leik með Fylki á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir 16 ára meistaraflokksferil.

Ásgeir Börkur, sem er 36 ára gamall, lauk ferlinum á því að hjálpa ÍR að ná öðru sæti 2. deildar og tryggja sér þannig sæti í 1. deild að ári.

Hann lék alls 276 leiki í efstu þremur deildum Íslands á ferlinum, flesta fyrir uppeldisfélagið Fylki, eða 174 í efstu tveimur deildunum, þar sem Ásgeir Börkur skoraði eitt mark.

Einnig lék hann um þriggja ára skeið fyrir HK í efstu deild og með Selfossi í 1. og 2. deild snemma á ferlinum.

Þá lék Ásgeir Börkur sem atvinnumaður með Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni fyrri hluta sumarsins 2013 og með GAIS í sænsku B-deildinni tímabilið 2014.

„Minningarnar, vinirnir og samböndin er það sem stendur upp úr!

Aðeins ein eftirsjá! Ég vildi ég hefði notið þess aðeins meira.. það tekur á að vera reiður sex daga vikunnar,“ skrifaði Ásgeir Börkur á samfélagsmiðlum er hann tilkynnti um ákvörðun sína í morgun.

mbl.is