Fram nýtti seinni vítaspyrnuna

Jannik Pohl hjá Fram fagnar marki sínu í kvöld. Arnar …
Jannik Pohl hjá Fram fagnar marki sínu í kvöld. Arnar Freyr Ólafsson í marki HK var allt annað en sáttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

HK og Fram skildu jöfn, 1:1, í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta í Kórnum í kvöld.

HK er þá komið með 26 stig í áttunda sæti deildarinnar og er áfram sex stigum frá fallsæti. Framarar eru með 20 stig eins og Eyjamenn en fara upp fyrir þá og í 10. sætið á betri markatölu.

Framarar byrjuðu leikinn betur og fengu fyrsta góða færið á 13. mínútu þegar Jannik Pohl skallaði í þverslána og út eftir hornspyrnu.

Jannik skallaði framhjá marki HK eftir þunga sókn stuttu síðar en á 18. mínútu slapp Anton Söjberg sóknarmaður HK inn í vítateig Fram og renndi boltanum framhjá Ólafi markverði en hárfínt framhjá stönginni fjær.

Fram fékk gullið færi til að komast yfir á 27. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á Kristján Snæ Frostason bakvörð HK fyrir brot á Jannik Pohl. Fred Saraiva tók vítaspyrnuna en skaut yfir markið.

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK var nærri búinn að koma sínum mönnum yfir eftir hornspyrnu á 36. mínútu en Ólafur Íshólm í marki Fram varði glæsilega í horn. Upp úr hornspyrnunni skallaði Örvar Eggertsson yfir mark Fram af stuttu færi.

Jannik Pohl var enn í færi á 39. mínútu, einn á markteig, en náði ekki að hitta markið eftir sendingu Arons Snæs Ingasonar frá endamörkum hægra megin.

Það vantaði því ekki marktækifærin í fyrri hálfleikinn en staðan var samt 0:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Markaleysið varði ekki lengi. Á þriðju mínútu síðari hálfleiks tók Ívar Örn Jónsson aukaspyrnu og sendi beint á kollinn á Arnþóri Ara Atlasyni sem skallaði frá hægra markteigshorni í hornið fjær, 1:0 fyrir HK.

Arnþór Ari Atlason fær knús frá fyrirliðanum Leifi Andra Leifssyni …
Arnþór Ari Atlason fær knús frá fyrirliðanum Leifi Andra Leifssyni eftir að hann skoraði fyrsta mark leiksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Strax í næstu sókn fékk Fram tvöfalt dauðafæri. Jannik komst innfyrir vörina, Arnar Freyr lokaði á skot hans út við vítateigslínuna, boltinn hrökk á Aron Jóhannsson en Arnar og Ahmdad Faqa köstuðu sér fyrir skot hans og björguðu málunum.

Framarar sóttu áfram af miklum krafti og jöfnunarmark lá í loftinu. Ahmad Faqa bjargaði á marklínu eftir skalla Arons Snæs Ingasonar á 59. mínútu.

Sóknarþunginn skilaði sér í vítaspyrnu á 76. mínútu þegar Ahmad Faqa braut á Jannik Pohl. Jannik fór sjálfur á vítapunktinn í þetta sinn og skoraði af öryggi, 1:1.

Aron Jóhannsson kom inn með mikinn kraft í Framliðið í …
Aron Jóhannsson kom inn með mikinn kraft í Framliðið í síðari hálfleiknum. Hér á hann í höggi við Kristján Snæ Frostason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir markið jafnaðist leikurinn og á 88. mínútu lék Örvar Eggertsson inn í vítateig Fram og átti fast skot sem Ólafur Íshólm varði vel.

Ólafur var aftur vel á verði í uppbótartímanum þegar hann varði hörkuskot Brynjars Snæs Pálssonar í horn.

En þrátt fyrir mikla baráttu og spennu á lokamínútunum í skemmtilegum og opnum leik urðu mörkin ekki fleiri og niðurstaðan var eitt stig á lið. Framarar geta verið öllu óhressari með þá niðurstöðu en HK-ingar.

HK 1:1 Fram opna loka
90. mín. Fred Saraiva (Fram) fer af velli
mbl.is
Loka