Þetta er ansi svekkjandi

Ólafur Íshólm fylgist með af löngu færi í marki Fram …
Ólafur Íshólm fylgist með af löngu færi í marki Fram þegar Jannik Pohl reynir að komast inn fyrir vörn HK í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Tilfinningin var sú þó að við lentum undir í leiknum að við myndum sækja sigurinn,“  sagði Ólafur Íshólm Ólafsson, markvörður og fyrirliði Fram, við mbl.is eftir jafnteflið gegn HK, 1:1, í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í Kópavogi í kvöld.

Fram komst úr fallsæti með jafnteflinu, á betri markatölu en ÍBV, en nýtti ekki aðra af tveimur vítaspyrnum sem liðið fékk í leiknum.

„Þetta er ansi svekkjandi. Við klúðruðum víti í stöðunni 0:0, sem dró móralinn kannski aðeins niður, en við héldum áfram og fengum færi til að skora í fyrri hálfleik.

Síðan gáfum við þeim ódýrt mark eftir fast leikatriði í byrjun síðari hálfleiks, sem var mikið kjaftshögg og algjör sofandaháttur af okkar hálfu. Við gleymdum okkur í eina sekúndu, þetta var nákvæmlega það sem við töluðum um í hálfleik að mætti ekki gerast, en svona er boltinn.“

Eftir að þið lentuð undir tókuð þið algjörlega völdin á vellinum og virtust líklegra liðið þar til á lokamínútunum.

„Já, ég er sammála því. Ég var aldrei stressaður yfir því að við myndum ekki skora. Tilfinningin var frekar sú að við myndum sækja sigurinn en því miður féll þetta ekki fyrir okkur og við komum boltanum ekki aftur í netið. 

En það er krefjandi leikur framundan gegn ÍBV. Nú eigum við fjóra úrslitaleiki eftir og við ætlum að vinna þá alla, svo teljum við bara stigin í lokin," sagði Ólafur.

Fram saknaði reyndra leikmanna í kvöld en Brynjar Gauti Guðjónsson, Hlynur Atli Magnússon og Þórir Guðjónsson voru allir utan hóps og ungir strákar, Þengill Orrason og Sigfús Árni Guðmundsson, fengu eldskírn sína í byrjunarliðinu hjá Ragnari Sigurðssyni.

„Við erum búnir að vera óheppnir með meiðsli og veikindi í hópnum en þeir verða vonandi allir tilbúnir í næsta leik og við verðum bara að sjá hvað vikan gefur þeim," sagði Ólafur Íshólm Ólafsson.

mbl.is