Við vorum sjálfum okkur verstir

Arnþór Ari Atlason fagnar eftir að hafa komið HK yfir …
Arnþór Ari Atlason fagnar eftir að hafa komið HK yfir gegn Fram í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnþór Ari Atlason, miðjumaðurinn reyndi hjá HK, var ekki ánægður með frammistöðu liðsins í kvöld þegar það  gerði jafntefli við Fram, 1:1, í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta í Kórnum.

HK er eftir þessi úrslit áfram sex stigum fyrir ofan fallsæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir en Framarar voru lengi vel mun sterkari aðilinn í leiknum.

„Við erum sáttir við þessi úrslit eins og leikurinn þróaðist. Framarar voru klárlega með yfirhöndina í baráttunni allan leikinn. Auðvitað er alltaf leiðinlegt að ná ekki að sigla þremur stigum heim eftir að maður kemst yfir í leiknum en við áttum ekkert meira skilið í dag,“ sagði Arnþór við mbl.is eftir leikinn.

Eftir að þið komust yfir voru Framarar í nær látlausri stórsókn og það virtist bara tímaspursmál hvenær þeir myndu jafna metin, eða hvernig sást þú það?

„Algjörlega, ég sammála því. Þetta var næstum því eins og við værum að reyna að leyfa þeim að jafna leikinn. Við vorum sjálfum okkur verstir, sérstaklega þegar við vorum með boltann á okkar vallarhelmingi.

Þá komum við okkur í erfiðar stöður, sendum boltann beint á þá. Framarar gerðu vel, þeir pressuðu okkur og tókst það vel en við vorum með slakar sendingar og slakar móttökur. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða fyrir næsta leik því við erum langt frá því að vera öruggir í þessari deild.“

Getur verið að þið hafið komið til leiks í kvöld með það í huga að þið væruð ekki í neinni fallbaráttu?

„Ég vona ekki. Við undirbjuggum okkur alla vega vel í þessu fríi og settum þessa fimm leiki upp sem nýtt mót þar sem allir byrja á núlli. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki í undirmeðvitundinni á mönnum að þetta sé hugsanlega komið, því það er það ekki. Við þurfum klárlega að sýna betri frammistöðu í næstu leikjum ef við ætlum að ná okkar markmiði.“

Arnþór skoraði mark HK, kom liðinu yfir með skalla eftir aukaspyrnu Ívars Arnar Jónssonar í fyrri hálfleiknum, og hann var að sjálfsögðu sáttur við það.

„Já, það er alltaf gaman að skora, þetta var frábær sending frá Ívari og það var eiginlega ekki hægt annað en að skora. Ég þurfti bara að vera þarna og skalla boltann. Það var gaman að skora með skalla, ég hef ekki gert það oft og ætti að gera það oftar.

Það góða við úrslitin í þessari fyrstu umferð í neðri hlutanum er að við erum áfram jafnmörgum stigum frá fallsætinu og fyrir hana. Markmiðið þokast alltaf nær og nær en ég hef smá áhyggjur. Við þurfum að stíga betur upp ef við ætlum að ná því," sagði Arnþór Ari Atlason.

mbl.is