Koma fleiri mörk þegar ég spila á kantinum

Selma Sól Magnúsdóttir á æfingu á Laugardalsvelli í dag.
Selma Sól Magnúsdóttir á æfingu á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Selma Sól Magnúsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og Rosenborg í Noregi, kveðst full tilhlökkunar fyrir leikjum gegn Wales og Þýskalandi í Þjóðadeild UEFA.

„Það er mjög gaman. Það er mjög jákvætt að fá loksins keppnisleiki og þetta er alltaf jafn gaman,“ sagði Selma Sól í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins á Laugardalsvelli í morgun.

Þjóðadeildin er ný af nálinni kvenna megin og verður fyrsti leikur Íslands í henni gegn Wales á Laugardalsvelli á föstudagskvöld.

„Ég tel að það sé mjög gaman að fá inn auka keppni og fleiri keppnisleiki fyrir okkur. Það er mjög jákvætt,“ sagði hún um Þjóðadeildina.

Hörkuleikur gegn Wales

Spurð hverju mætti eiga von á frá liði Wales, sem Ísland mætti á Pinatar-mótinu á Spáni fyrr á árinu, sagði Selma Sól:

„Við vorum að klára smá vídeófund fyrir æfingu. Við horfðum aðeins á Wales og horfðum aðeins til baka á leik okkar gegn þeim.

Ég held að það megi búast við hörkuleik og ég tel að við getum nýtt okkur þeirra veikleika með okkar styrkleikum. Ég held að þetta verði jafn leikur og mjög spennandi.“

Spennandi tími fram undan

Henni hefur vegnað vel með Rosenborg á tímabilinu, sem er á toppi norsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum fyrir ofan Vålerenga í öðru sætinu, þar sem Ingibjörg Sigurðardóttir er fyrirliði.

„Það eru sex leikir eftir þannig að það er mjög spennandi tími fram undan. Það er mikið undir. Það er alltaf gaman að vera að vinna fyrir einhverju og þegar það er svona mikið í gangi,“ sagði Selma Sól.

Að undanförnu hefur hún komið að fjölda marka hjá norska toppliðinu; skorað tvö mörk og lagt upp önnur fjögur í síðustu fjórum deildarleikjum.

Hefur smollið aðeins betur

Hver hefur verið lykillinn að góðu gengi liðsins og Selmu Sólar undanfarið?

„Ég held að við séum meira einbeittar á einn leik í einu undanfarið og það er búið að hjálpa okkur mjög mikið.

Ég er búin að vera að spila svolítið úti á hægri kanti og þá kannski koma fleiri mörk. Það er svona eina breytingin, að vera aðeins framar á vellinum í staðinn fyrir að vera djúp á miðjunni.

Ég held að þá hafi þetta smollið aðeins betur markalega séð. Ég vil bara vera inni á vellinum og gera mitt besta í hvert skipti. Það er það sem ég fer með inn í leikina,“ útskýrði hún.

Þegar kemur að landsliðinu gerir Selma Sól ekki upp á milli leikstaðna.

„Ég er þar sem þjálfarinn vill hafa mig og tek mínu hlutverki fagnandi,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is