Sú besta í 21. umferðinni

Murielle Tiernan í þann mund að skora fjórða mark sitt …
Murielle Tiernan í þann mund að skora fjórða mark sitt og sjöunda mark Tindastóls í 7:2-sigri liðsins á ÍBV um síðustu helgi. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Murielle Tiernan, framherji Tindastóls, var besti leikmaðurinn í 21. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Murielle átti einhvern stórbrotnasta leik í sögu deildarinnar þegar hún skoraði fjögur mörk fyrir Tindastól í nánast hreinum úrslitaleik liðsins gegn ÍBV um áframhaldandi sæti í hópi þeirra bestu.

Eyjakonur réðu ekkert við Murielle sem skoraði þrjú skallamörk á fyrstu 36 mínútum leiksins, lagði upp eitt mark, og skoraði svo sitt fjórða mark í síðari hálfleiknum með glæsilegum tilþrifum.

Murielle fékk þrjú M, hæstu einkunn, fyrir frammistöðu sína, enda átti hún nánast fullkominn leik og átti stærstan þátt í stórsigri Tindastóls, 7:2, en með því halda Skagfirðingar sæti sínu í deildinni, á kostnað ÍBV, og verða því í fyrsta skipti í tvö ár í röð í hópi bestu liða landsins.

Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem Morgunblaðið velur Murielle besta leikmann umferðar en hún varð líka fyrir valinu eftir fimmtu umferð deildarinnar í vor.

Nánar um Murielle ásamt liði 21. umferðar á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: