„Tilfinningin er frábær. Þetta er ansi góð tilfinning sem venst vel,“ sagði Viktor Örlygur Andrason, leikmaður Víkings úr Reykjavík, í samtali við Morgunblaðið eftir að hann vann sinn fjórða bikarmeistaratitil í röð með uppeldisfélaginu um liðna helgi.
Víkingur varð bikarmeistari með sigri á KA, 3:1, í úrslitaleiknum á laugardag eftir að hafa einnig staðið uppi sem bikarmeistari árin 2022, 2021 og 2019. Bikarkeppninni var hætt án sigurvegara árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins, þegar Víkingur var fallinn úr keppni.
Því eru sigrarnir í bikarkeppninni orðnir fjórir í röð. Hvernig fór Víkingur að því að afreka það?
„Það er góð spurning og ekkert hægt að segja að eitthvað eitt hafi leitt til þess að þetta hafi gengið svona. Þetta er samspil af góðum hópi, góðu þjálfarateymi og öllu því sem hefur verið í gangi hjá félaginu síðustu ár.
Þegar við unnum bikarinn árið 2019 var það svolítið frábrugðið því þegar við unnum hann síðustu ár. Þá var þetta náttúrlega stysta leiðin í Evrópukeppni, við litum svolítið á það þannig árið 2019. Þetta eru bara fimm leikir sem þú þarft að vinna og þá ertu kominn með Evrópusæti.
Eftir að það gekk vel hugsuðum við þetta bara þannig að þetta væri okkar keppni sem við ætluðum ekkert að láta neinn taka af okkur. Það var kannski svona stóra hugarfarið sem við vorum með síðustu ár,“ sagði Viktor.
Viðtalið við Viktor má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.