Ætlum okkur Evrópusæti

Theodór Elmar Bjarnason í kapphlaupi í kvöld.
Theodór Elmar Bjarnason í kapphlaupi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður KR, var svekktur með að hafa ekki náð í öll stigin þrjú eftir 2:2 jafntefli við Víking í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. 

„Við erum mjög sáttir við að hafa náð að koma til baka eftir að hafa verið 2:0 undir í hálfleik en ég er líka frekar svekktur að hafa ekki bara náð að stela sigrinum,“ sagði hann við mbl.is eftir leikinn.

Það er ennþá möguleiki á Evrópusæti. Er það endamarkmið KR á þessu tímabili?

„Við ætlum okkur að ná Evrópusæti. Við erum ekki að horfa á neitt annað en það.“

Næsti leikur er á móti Val sem þið verðið að vinna ekki satt?

„Það er búið að ganga ansi brösuglega á móti Val í sumar og við þurfum að sýna okkur stuðningsmönnum og sanna fyrir okkur sjálfum að munurinn á KR og Val er ekki sá sem undanfarin úrslit hafa sýnt og til að ná okkar markmiðum þá þurfum við að vinna Val,“ sagði Theodór Elmar í samtali við mbl.is eftir leik.  

mbl.is