Víkingar úr Reykjavík þurfa að bíða lengur eftir því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu karla eftir 2:2-jafntefli gegn KR á Víkingsvelli í kvöld, en leikurinn var í 23. umferð Bestu deildarinnar.
Eftir sigurinn eru Víkingar með 60 stig, 12 stigum á undan Val. Það eru einmitt 12 stig eftir í pottinum, en Víkingar eru með talsvert betri markatölu en Valur og þurfa í raun bara eitt stig úr næstu fjórum leikjum til að verða Íslandsmeistarar.
Mikil spenna var fyrir leikinn og voru stuðningsmenn Víkinga mættir löngu fyrir leik til að byggja upp góða stemningu.
KR byrjaði leikinn af miklum krafti fyrstu mínúturnar og átti Ægir Jarl Jónasson fyrsta dauðafæri leiksins á 3. mínútu leiksins þegar Benoný Breki Andrésson stal boltanum af leikmanni Víkings, gaf hann á Ægi sem skaut að marki Víkinga en Ingvar Jónsson varði vel.
Á níundu mínútu leiksins bjargaði KR í horn. Pablo Punyed tók hornspyrnuna fyrir Víkinga, gaf boltann fyrir markið þar sem Aron Elís Þrándarson fékk allan þann tíma sem hann þurfti til að skalla boltann í netið. Staðan 1:0 fyrir Víking.
Víkingar unnu boltann strax aftur þegar Danijel Djuric komst í dauðafæri en KR bjargaði í horn. KR-ingar voru í hálfgerðri nauðvörn á þessum tímapunkti í leiknum og sóttu Víkingar sífellt meira í sig veðrið.
Á 23. mínútu reyndi Danijel Djuric skemmtilega hjólhestaspyrnu eftir fyrirgjöf frá samherja en boltinn fór yfir. Títt nefndur Danijel var aftur á ferðinni á 31. mínútu þegar Kristinn Jónsson gerði skelfileg mistök í sendingu til baka. Danijel hljóp þá inn í sendinguna og setti boltann í nánast autt mark KR. Staðan orðin 2:0 fyrir Víkinga og Íslandsbikarinn á leið í Fossvoginn.
Á 34. mínútu fengu KR-ingar aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Olav Öby tók spyrnuna og skaut föstu skoti að marki Víkinga sem Ingvar Jónsson varði vel í horn. Mínútu síðar þurftu Víkingar að gera skiptingu þegar Ari Sigurpálsson meiddist. Inn á völlinn í hans stað kom Birnir Snær Ingason.
KR-ingar fengu dauðafæri á 43. mínútu þegar Aron Þórður Albertsson keyrði með boltann inn í teig Víkinga vinstra megin, gaf boltann fyrir en Benoný var hársbreidd frá því að koma tánni í boltann.
Lokafæri fyrri hálfleiks kom á 45. mínútu þegar Helgi Guðjónsson komst einn inn fyrir vörn KR en Simen Lillevik sá við honum. Staðan í hálfleik 2:0 fyrir Víkinga. Síðari hálfleikur hófst fjörlega. Víkingar gerðu tvær góðar atlögur að marki KR en tókst ekki að skora.
Það gerðu hinsvegar KR-ingar á 53. mínútu eftir glæsilega skyndisókn þar sem Benoný Breki brunaði upp völlinn, gaf á Kristin Jónsson sem stakk boltanum aftur inn á Benoný sem afgreiddi boltann á milli fóta Ingvars í marki Víkinga. Staðan orðin 2:1.
Nánast það nákvæmlega sama gerðist á 74. mínútu. Víkingar fengu hornspyrnu. KR-ingar náðu boltanum, brunuðu upp í skyndisókn þar sem Stefán Árni Geirsson keyrði upp völlinn, skaut á markið en Ingvar varði. Kristinn Jónsson náði frákastinu og skallaði boltann í netið. Staðan 2:2 og allt í járnum. Eftir þetta skiptust liðin á að sækja, KR jafnvel meira og lá oft mjög þungt á Víkingum.
Niðurstaðan 2:2 jafntefli á Víkingsvelli og þurfa Víkingar að bíða aðeins lengur eftir því að fá að lyfta Íslandsbikarnum í ár en KR-ingar þurfa að sækja sigur gegn Val á sunnudaginn til að halda áfram í vonina um Evrópusæti.