Áhorfandi í Víkinni þurfti læknisaðstoð

Stuðningsmenn Víkings á leik liðsins gegn KR í gærkvöldi.
Stuðningsmenn Víkings á leik liðsins gegn KR í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undir lok leiks Víkings úr Reykjavík og KR í Bestu deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi kom upp atvik í áhorfendastúkunni þar sem áhorfandi þurfti á læknisaðstoð að halda. Er hann við góða heilsu.

Frá þessu er greint í tilkynningu Víkings á samfélagsmiðlum.

Í tilkynningunni er um leið komið á framfæri þakklæti í garð þeirra áhorfenda sem aðstoðuðu einstaklinginn og aðstandendur hans af „einstakri nærgætni.“

Tilkynning Víkinga í heild sinni:

„Kæru Víkingar. Undir lok leiks Víkings og KR í kvöld kom upp atvik í áhorfendastúkunni þar sem einstaklingur þurfti læknisaðstoð.

Við þá gesti Víkinnar sem urðu vitni að atvikinu viljum við koma því á framfæri að einstaklingurinn sem um ræðir er við góða heilsu.

Einnig viljum við koma á framfæri þakklæti í garð þeirra sem brugðust hratt við og aðstoðuðu einstaklinginn og aðstandendur af einstakri nærgætni.

Fjölskylda viðkomandi vill koma þökkum á framfæri til allra sem að þessu komu. Víkingur sendir fjölskyldunni einnig sínar bestu kveðjur.“

mbl.is
Loka