Glódís um útspil Bayern: „Þetta kom mér á óvart“

Glódís Perla Viggósdóttir glaðbeitt á blaðamannafundinum í morgun.
Glódís Perla Viggósdóttir glaðbeitt á blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu og þýska stórliðsins Bayern München, segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart að Þýskalandsmeistararnir hafi gert henni hátt undir höfði með því að kynna nýjan samning hennar við félagið í opinberri búð þess í München í gær.

Kvennalið Bayern München birti í gær myndskeið á samfélagsmiðlum sínum þar sem sjá mátti Glódísi Perlu á stærðarinnar vegg um leið og gengið er inn í búðina.

„Þetta kom mér á óvart. Ég bjóst ekki við þessu. Þetta var smá gæsahúðaraugnablik og ég hugsa að litla ég hefði verið ótrúlega stolt af þessu, að þau væru að gera þetta.

Ekki bara fyrir mig heldur fyrir kvennafótbolta yfir höfuð, að þau séu að setja þennan metnað í að kynna leikmennina sína og búa til áhuga af því að það fær fólk á völlinn.

Þetta býr til áhuga og umtal, allt þetta sem við viljum,“ sagði Glódís Perla á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í morgun.

Ísland mætir Wales í fyrstu umferð Þjóðadeildar UEFA á Laugardalsvelli annað kvöld.

mbl.is