Íslenska liðið stendur í stað – heimsmeistararnir efstir

Ísland vann sætan sigur á Bosníu í síðasta leik.
Ísland vann sætan sigur á Bosníu í síðasta leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er áfram í 67. sæti á styrkleikalista FIFA, en nýr listi var gefinn út í dag.

Ísland hefur staðið í stað síðan í júní, en íslenska liðið var í 64. sæti í apríl. Síðan þá hefur Ísland vermt 67. sætið. 

Ísland hefur hæst verið í 18. sæti listans, en lægst 131. sæti. Ísland er sæti neðar en Norður-Makedónía og sæti ofar en Svartfjallaland.

Íslenska liðið lék tvo leiki frá síðasta lista. Liðið tapaði fyrir Lúxemborg á útivelli, 1:3, og vann 1:0-heimasigur á Bosníu.

Efstu sjö sætin standa einnig í stað, en heimsmeistarar Argentínu eru enn í toppsætinu, Frakkland í öðru sæti, Brasilía í þriðja, England í fjórða, Belgía í fimmta, Króatía í sjötta og Holland í sjöunda sæti.

Aðeins ein breyting er á tíu efstu sætunum; Portúgal fer upp í áttunda sæti og upp fyrir Ítalíu sem er í níunda sæti.

mbl.is