„Ég er rosalega ánægð,“ sagði landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir í samtali við mbl.is eftir sætan 1:0-sigur Íslands á Wales í fyrsta leik liðanna í 3. riðli A-deildarinnar í Þjóðadeild kvenna í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld.
„Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur. Ótrúlega sterkt og jákvætt að byrja Þjóðadeildina á sigri á heimavelli.
Mér fannst vinnuframlagið mjög gott. Varnarleikurinn mjög góður, samkvæmt plani. Við héldum ekki mikið í boltann og getum bætt okkur þar. En við sköpuðum nóg af færum, á enn betri degi myndum við skora fleiri mörk,“ sagði Hlín.
„Ég held að ég hafi skilað mínu, gerði það sem þjálfararnir ætluðust til af mér. Að sjálfsögðu get ég gert betur en ég er nokkuð sátt með mína frammistöðu,“ sagði Hlín um sína eigin frammistöðu en hún fær alltaf stærra og stærra hlutverk í landsliðinu.
Hlín er spennt fyrir leiknum gegn Þýskalandi á þriðjudaginn.
„Það er mjög spennandi. Risaleikur gegn einu besta liði í heimi. Það verður áskorun fyrir okkur en ég hlakka mjög til.“