Afturelding og Vestri tryggðu sér í dag sæti í úrslitaleik umspils 1. deildar karla í knattspyrnu um laust sæti í Bestu deildinni. Afturelding lagði Leikni úr Reykjavík örugglega að velli í Mosfellsbænum og jafntefli nægði Vestra gegn Fjölni í Grafavoginum.
Afturelding hóf leik af feikna krafti og var komið í 3:0 eftir aðeins 25 mínútna leik.
Arnór Gauti Ragnarsson kom heimamönnum á bragðið á 17. mínútu þegar hann skoraði með góðu vinstri fótar skoti úr D-boganum niður í bláhornið eftir skallasendingu Braz út úr vítateignum.
Aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Oliver Jensen forystuna þegar hann fékk sendingu frá Aroni Elí Sævarssyni, var einn á auðum sjó í vítateignum, náði vinstri fótar skoti sem fór af varnarmanni, yfir Viktor Frey Sigurðsson í marki Leiknis og þaðan í netið.
Á 25. mínútu kom svo þriðja markið þegar sending Bjarna Páls Linnet Runólfssonar með jörðinni frá hægri barst til Braz á nærstönginni og hann skoraði með viðstöðulausu skoti í nærhornið.
Staðan var því 3:0 þegar flautað var til leikhlés og Afturelding.
Fátt markvert gerðist í síðari hálfleik og reyndust 3:0 lokatölur. Afturelding vann því einvígið auðveldlega, 5:1.
Afturelding flaug því í úrslitaleikinn.
Vestri náði forystunni á 38. mínútu þegar Vladimir Tufegdzic slapp einn í gegn eftir laglega stungusendingu Benedikts V. Waréns. Tufegdzic kom boltanum svo undir Sigurjón Daða Harðarson í marki Fjölnis.
Staðan í hálfleik var 1:0, Vestra í vil, og 2:0 samanlagt.
Strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Guðmundur Karl Guðmundsson metin fyrir Fjölni með góðu innanfótarskoti úr D-boganum eftir laglegan undirbúning Axels Freys Harðarsonar.
Eftir rúmlega klukkutíma leik fékk Ibrahima Baldé, leikmaður Vestra, sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Sjö mínútum síðar, á 68. mínútu, fékk Bjarni Þór Hafstein í liði Fjölnis beint rautt spjald fyrir að sparka í Tufegdzic þegar boltinn var hvergi nærri.
Fleiri urðu mörkin ekki, lokatölur 1:1 og Vestri vann samanlagt 2:1.
Vestfirðingar mæta því Mosfellingum í úrslitaleik umspilsins á Laugardalsvelli næstkomandi laugardag.