Allar heilar og ferskar í Düsseldorf

Sandra María Jessen, Selma Sól Magnúsdóttir og Agla María Albertsdóttir …
Sandra María Jessen, Selma Sól Magnúsdóttir og Agla María Albertsdóttir á æfingunni í Düsseldorf í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta kom til Düsseldorf í Þýskalandi í gær og  býr sig þar undir leikinn gegn Þýskalandi í Þjóðadeild UEFA sem fer fram í Bochum á þriðjudaginn.

Liðið æfir á velli áhugamannafélagsins BV 04 Düsseldorf, sem er staðsett nálægt miðborginni en leikmenn karlaliðs félagsins mættu einmitt á svæðið í morgun á meðan landsliðsæfingin stóð yfir til að fara í útileik í héraðsdeild svæðisins síðar í dag og fylgdust um stund með íslenska liðinu æfa.

Selma Sól Magnúsdóttir sýnir tilþrif í upphitun í dag og …
Selma Sól Magnúsdóttir sýnir tilþrif í upphitun í dag og Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði fylgist agndofa með. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Þorsteinn Halldórsson þjálfari íslenska liðsins sagði í stuttu spjalli við mbl.is fyrir æfinguna að allar landsliðskonurnar væru heilar og ferskar eftir leikinn gegn Wales á Laugardalsvellinum á föstudaginn, en þar hóf Ísland keppnina með sigri, 1:0, með marki Glódísar Perlu Viggósdóttur.

Bryndís Arna Níelsdóttir kom til móts við liðið frá Rabat í Marokkó þar sem hún lék með 23-ára landsliðinu og skoraði í sigurleik Íslands, 3:2, á föstudaginn, og var mætt í tæka tíð í gær. Hún kom inn í hópinn fyrir Sveindísi Jane Jónsdóttur sem gat ekki spilað á föstudaginn vegna meiðsla og verður ekki heldur með á þriðjudaginn.

Brugðið á leik í upphitun fyrir æfinguna í dag.
Brugðið á leik í upphitun fyrir æfinguna í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Í Düsseldorf er rúmlega 20 stiga hiti og sól, fallegt haustveður þó kalt hafi verið í morgunsárið, og spáð er svipuðu veðri og 20-24 stiga hita næstu 2-3 daga. Leikið verður í Bochum en um 45 mínútna akstur er á milli nágrannaborganna í Ruhr-héraðinu.

KSÍ valdi að æfa frekar í Düsseldorf í dag og á morgun og fara síðan beint þaðan í leikinn á þriðjudaginn, sem hefst klukkan 16.15 að íslenskum tíma, 18.15 að staðartíma.

Þýskaland tapaði fyrir Danmörku, 2:0, í fyrstu umferðinni í Viborg á föstudaginn og það verður því barist um afar mikilvæg stig í Bochum á þriðjudag.

Íslensku landsliðskonurnar undirbúa sig fyrir æfinguna í sólinni í Düsseldorf …
Íslensku landsliðskonurnar undirbúa sig fyrir æfinguna í sólinni í Düsseldorf í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson
mbl.is