Forráðamenn KR ætla sér að heiðra minningu Bjarna Felixsonar sérstaklega fyrir leik KR og Vals í efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í Vesturbænum í dag.
Þetta staðfesti Sonja Hlín Arnarsdóttir, markaðs- og viðburðarstjóri KR, í samtali við mbl.is.
Bjarni, sem er líklega þekktasti íþróttafréttamaður Íslands frá upphafi, lést hinn 14. september síðastliðinn, 86 ára að aldri. Hann var leikmaður í sigursælu liði KR sem m.a. varð bikarmeistari fimm ár í röð, vann Íslandsmótið með fullu húsi stiga árið 1959, og þá lék hann sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1962 til 1964.
„Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að heiðra minningu Bjarna Felixsonar,“ sagði Sonja í samtali við mbl.is.
„Það hefur enginn í póstnúmeri 107 komist hjá því að hugsa til Bjarna um helgina enda hefur verið yfirtaka á strætóskýlum í hverfinu með mynd af honum yfir helgina. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur boðað komu sína í Vesturbæinn fyrir leikinn gegn Val þar sem mínútuþögn verður fyrir leikinn.
Það verður inngöngufáni með mynd af Bjarna þegar leikmenn og dómara ganga inn á völlinn. Systkini Bjarna verða í stúkunni og ég vonast að sjálfsögðu til þess að sjá sem flesta KR-inga og annað knattspyrnuáhugafólk í stúkunni sem kann að meta framlag Bjarna til íslenskrar knattspyrnu,“ bætti Sonja við í samtali við mbl.is.