Ennþá ein mín uppáhalds minning

Ingibjörg Sigurðardóttir fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Düsseldorf í dag.
Ingibjörg Sigurðardóttir fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Düsseldorf í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Ingibjörg Sigurðardóttir, varnarmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er aðeins önnur tveggja núverandi landsliðskvenna sem tóku þátt í sigurleiknum frækna gegn Þýskalandi í undankeppni HM í Wiesbaden í október 2017.

Hún og Glódís Perla Viggósdóttir, núverandi fyrirliði, voru báðar í vörn Íslands en Ingibjörg var þá aðeins tvítug, nánast nýliði í liðinu, hafði spilað fyrsta landsleikinn fyrr á árinu og lék aðeins sinn sjötta landsleik í Wiesbaden.

„Þessi leikur í Wiesbaden er ennþá ein mín uppáhaldsminning úr fótboltanum," sagði Ingibjörg, spurð um leikinn árið 2017, fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í dag.

„Ég held að það hafi hjálpað mér sem nýliða að koma inn í þann leik með því hugarfari að hafa engu að tapa og ég hafði bara trú á að við gætum allt. Nú þarf maður bara að finna aftur þá tilfinningu," sagði Ingibjörg við mbl.is.

Hún gerðist atvinnumaður í Svíþjóð skömmu eftir leikinn og útilokaði ekki að leikurinn gegn Þýskalandi hefði hjálpað henni.

„Ég veit það ekki, það gæti vissulega alveg verið. Hann hafði alla vega ekki slæm áhrif á mig, en ég held að sá leikur hafi fyrst og fremst gefið okkur öllum sjálfstraust. Það væri virkilega gott að fá aftur svipaðan leik," sagði Ingibjörg.

Hún sagði að liðið væri í ágætu standi eftir leikinn gegn Wales á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið en íslenska liðið vann þar nauman sigur, 1:0, eftir að hafa þurft að verjast talsvert stóran hluta leiksins.

„Heilsan er bara fín hjá okkur, við erum að koma okkur aftur í gang. En þetta var erfiður leikur gegn Wales og við spiluðum kannski of mikinn varnarleik, þó það sé gaman, en svona eru sumir leikir. Okkur líður afar vel í lágpressunni, en svo er alltaf spurning hvort okkur líði of vel í því."

Þið þurfið væntanlega að vera enn betur á tánum í varnarleiknum gegn Þýskalandi?

Sara Däbritz, Ingibjörg Sigurðardóttir og Sif Atladóttir í síðasta leik …
Sara Däbritz, Ingibjörg Sigurðardóttir og Sif Atladóttir í síðasta leik Þýskalands og Íslands á Laugardalsvellinum haustið 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Já, ætli þetta verði ekki að mörgu leyti svipaður leikur og þá skiptir enn meira máli að nýta betur þau tækifæri sem við fáum til að halda í boltann og gera eitthvað við hann. Við fengum fín færi á móti Wales en á móti Þýskalandi fáum við kannski bara eitt eða tvö þannig að við verðum að nýta þau.“

Danmörk vann Þýskaland óvænt, 2:0, á föstudaginn. Eruð þið búnar að skoða þann leik og sjá hvernig þið getið nýtt ykkur mögulega veikleika í þýska liðinu?

„Þjálfararnir eru búnir að skoða þetta en maður sér bara stöðuna sem Þýskaland er komið í, bæði þjálfaraskipti og svo ekki nægilega gott gengi hjá liðinu. En þær eru alltaf góðar, þær verða aldrei lélegar á móti okkur, þannig að þetta verður mjög erfiður leikur.

Þýska liðið spilar alltaf mikið upp á sendingar á Alexöndru Popp, sérstaklega með fyrirgjöfum. Hvernig er hægt að stöðva hana?

„Við þurfum að sýna hörku og vera ákveðnar, þegar við unnum þær hérna árið 2017 voru það liðsheild og harka sem færðu okkur sigurinn. Ég held að við þurfum að láta þann leik gefa okkur hvatningu. Hvað Popp varðar verðum við alltaf að passa hana og sjá til þess að hún komist ekki á ferðina og nái í skallaboltana, sem verður alltaf erfitt verkefni," sagði Ingibjörg Sigurðardóttir.

mbl.is