Fá ekkert að laga hlutina á móti okkur

Guðrún Arnardóttir fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í dag.
Guðrún Arnardóttir fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Guðrún Arnardóttir, varnarmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, segir að liðið hafi ekki ætlað að spila eins mikinn varnarleik og raunin varð gegn Wales á föstudaginn, en viðbúið sé að liðið verði enn meira í vörn þegar það mætir Þýskalandi í Bochum í Þjóðadeildinni á þriðjudaginn.

Leikurinn við Wales var alls ekki auðveldur,“ sagði Guðrún við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í morgun.

„Við enduðum með að verjast stóran hluta leiksins, sem okkur þykir ekkert óþægilegt, en við viljum samt halda meira í boltann, vera meira með hann innan liðsins og eiga lengri sóknir. Við ætluðum alls ekki að liggja svona mikið í vörn gegn Wales eins og raunin varð. Wales er með svipað lið og við að styrkleika og við eigum að geta haldið betur í boltann og spilað betur gegn þeim en við gerðum. Það er eitthvað sem við getum unnið með frá síðasta leik en við getum líka tekið með okkur að við vörðumst vel. Þær sköpuðu ekki mikið þó við værum mikið í vörn.“

En gegn Þýskalandi þurfið þið væntanlega að verjast enn betur?

„Nákvæmlega, og það einmitt mikilvægt að við tökum það með okkur, að við séum sterkt varnarlið. Okkur finnst ekkert óþægilegt að verjast og kunnum það vel. En að sama skapi þurfum við þá líka að halda aðeins í boltann og hvíla okkur aðeins með hann.“

Hvað er hættulegast við þýska liðið?

„Þær eru með gríðarlega sterka leikmenn og eru almennt séð vel spilandi og líkamlega sterkt lið. Ég held að mikilvægast sé að við mætum þeim í líkamlegu baráttunni og sýnum þeim að þær muni ekki fá neitt gefins.

Gengi þeirra núna hefur ekki verið sérstakt og ekki samkvæmt þeirra standard, og vonandi getum við nýtt okkur það aðeins að þær skuli vera dálítið brotnar, og komið því inn hjá þeim að þær fái ekkert að laga hlutina á móti okkur. Það verður bara meira niðurbrot.“

Erfitt tímabil hjá sænsku meisturunum

Guðrún varð sænskur meistari og bikarmeistari með Rosengård frá Malmö á síðasta ári en liðið er í basli í ár og er í sjöunda sæti þegar langt er liðið á tímabilið í Svíþjóð. Ljóst er að enginn titill vinnst á árinu 2023.

„Þetta er búið að vera rosalega erfitt tímabil og ekki í þeim standard sem félagið setur. Krafan er sú að liðið sé alltaf í titilbaráttu og okkur hefur gengið brösuglega í ár. Eðlilega verður stundum niðursveifla eftir meistaratitla tvö ár í röð en hún á ekki að vera á þann veg að detta niður hálfa töfluna.

Við þurfum að reyna að halda áfram, reyna að sætta okkur við það því að við getum ekki breytt því sem hefur þegar gerst og freista þess að færa okkur ofar það sem eftir tímabils. Vonandi tekst okkur að komast aftur í riðlakeppnina í Meistaradeildinni, en við eigum að eiga góða möguleika þar. Það gæti orðið sárabót fyrir þetta vonbrigðatímabil,“ sagði Guðrún en Rosengård mætir Spartak Subotica frá Serbíu í tveimur leikjum um Meistaradeildarsæti í október.

Fær gífurlegan stuðning frá fjölskyldunni

Guðrún er ættuð frá Ísafirði og kemur úr mikilli fótboltafjölskyldu en Örn Torfason, faðir hennar, og bræður hans, Jóhann, Ómar og Gunnar, léku allir meistaraflokksfótbolta á sínum tíma, og Ómar var um skeið bæði landsliðs- og atvinnumaður. Guðrún sagði að stuðningur fjölskyldunnar við sig væri hreint ómetanlegur.

„Þetta er bara frábært og ég hef alltaf fengið ruglaðan stuðning. Ég held að ég sé alltaf með einhverja tugi úr fjölskyldunni í stúkunni á hverjum leik, þau eru með sér grúbbu þar sem talað er um hverjir mæta og slíkt, og þetta gerir gríðarlega mikið fyrir mann. Talan 18 sem ég er með í landsliðinu er talan hans afa heitins (Torfa Björnssonar) sem lést á dögunum, og fjölskyldan flykkist öll á bak við þá tölu og stendur með mér í þessu.

Systkini pabba hafa öll sínar sterku skoðanir á fótboltanum og það er gaman að leita til þeirra, hvort sem það er smá spjall, einhver ráð eða eitthvað slíkt, því þau þekkja þetta umhverfi allt saman. Mér þykir afskaplega vænt um þetta,“ sagði Guðrún Arnardóttir.

mbl.is
Loka