Jafnt í Vesturbænum og Víkingur Íslandsmeistari

Benoný Breki Andrésson fagnar með liðsfélögum sínum í kvöld.
Benoný Breki Andrésson fagnar með liðsfélögum sínum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

KR-ingar og Valsmenn gerðu jafntefli, 2:2, í efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu karla á heimavelli í dag.

Með þessu stigi fyrir bæði lið eru bæði ennþá í sömu sætum, KR í 6. sæti með 34 stig og Valsmenn í 2. sæti með 49 stig.

Þetta þýðir það líka að fyrst Valsmenn unnu ekki, þá eru Víkingar Íslandsmeistarar árið 2023. 

Fyrir leik var heiðruð minning Bjarna Felixsonar með mínútu þögn og meðal gesta voru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og systkini Bjarna. 

Falleg stund.

Leikurinn hófst af krafti og voru heimamenn töluvert betri. Fyrsta færi leiksins kom strax á fyrstu mínútu. Kennie Chopart, fyrirliði KR, fékk boltann hægra meginn í vítateignum og fór upp að endalínu, beið eftir KR-ingum, sendi fyrir og boltinn barst á Ægi Jarl Jónasson sem fékk hann á lofti og skaut föstu skoti rétt framhjá nærstöng. Ægir hefði eflaust viljað ná betra valdi á boltanum fyrir skotið.

Á 3. mínútu átti Sveinn Sigurður, markmaður Vals, misheppnaða sendingu sem endaði hjá KR-ing. Boltinn barst vinstra meginn í teignum á Theodór Elmar Bjarnason sem átti skot/sendingu en Sveinn Sigurður varði vel.

Á 12. mínútu fengu KR dauðafæri. Ægi Jarl sendi boltann á Theodór Elmar vinstra meginn í teignum og átti hörkuskot sem Sveinn Sigurður varði í horn.

KR-ingar voru mun aðgangsharðari fyrstu rúmlega tuttugu mínúturnar en Valsmenn fengu líka tvö færi en það var á 24.mínútu sem fyrsta mark leiksins leit ljós. Orri Hrafn Kjartansson fékk boltann utarlega í vítateig KR, tók eina gabbhreyfingu og átti hörkuskot með jörðinni í fjær sem Simen Kjellevold, markvörður KR réð ekki við. 0:1- fyrir Val, svolítið gegn gangi leiksins.

Sveinn Sigurður í marki Vals átti frábæran leik í dag og átti eina af sínum bestu vörslum á 39. mínútu þegar Benóný Breki Andrésson skallaði að marki eftir frábæra sendingu frá Kennie Chopart. Sveinn Sigurður varði glæsilega og Valsmenn héldu forystunni inní hálfleik.

Á 50. mínútu fengu Valsmenn heldur betur tækifæri til að tvöfalda forystuna. Eftir mistök í vörn KR barst boltinn á Kristinn Frey Sigurðsson sem fór upp að endamörkum hægra meginn í vítateig KR, sendi boltann á fjær þar sem að Orri Hrafn var í dauðafæri og skallaði boltinn af krafti en boltinn fór framhjá.

Í kjölfarið fengu KR-ingar sókn. Boltinn barst á Kristin Jónsson á vinstri vængnum, hann hljóp með boltann að endalínu við vítateig og gaf fasta sendingu á nærstöng þar sem að Benóný Breki Andrésson var mættur og skoraði. 1:1.

Heimamenn fylgdu markinu eftir með tveimur hörkuskotum. Það fyrra átti Kennie Chopart en það var varið í horn og það seinna átti Benóný Breki, þegar hann skrúfaði boltann utan vítateigs og boltinn endaði rétt yfir.

KR-ingar héldu áfram að ógna marki Valsmanna og áttu færi á 62.mínútu þegar Jóhannes Kristinn Bjarnason átti skot yfir markið eftir sendingu Theodórs Elmars Bjarnason og svo átti Olav Öby fínt skot á 68. mínútu sem fór í varnarmann og framhjá.

Á þessum tímapunkti hefðu KR-ingar getað verið komnir yfir en allt kom fyrir ekki. Það var svo á 74. mínútu að Patrick Pedersen fékk boltann við vítateigslínu KR og hann átti skot á fjær og í markið. Virkilega vel klárað hjá Patrick og staðan 1:2.

Það leið varla mínúta þangað til að KR fékk víti á 75. mínútu. Haukur Páll braut þá á Ægi Jarli innan vítateigs og Benóný fór á punktinn og skoraði örugglega, 2:2.

Leikurinn var að fjara út þegar Valsmenn fengu hörkusókn og dauðafæri á annarri mínútu uppbótartíma. Tryggvi Hrafn Haraldsson fékk sendingu vinstra meginn í vítateig KR og átti þrumuskot sem Simen varði mjög vel. Aftur var Simen að henda í hörkuvörslu í lokin á ögurstundu, en hann átti einmitt risa vörslu undir lok leiks Víkings og KR á miðvikudaginn.

Heilt yfir var þetta sanngjarnt 2:2-jafntefli. KR-ingar voru þó klaufar að nýta ekki betur sín færi í upphafi leiks og næsta rúmlega korter eftir 1:1 jöfnunarmarkið. Sveinn Sigurður í marki Vals, var maður leiksins og hélt Hlíðarenda piltum á floti. Valsmenn voru þó klínískari í sínum aðgerðum. Fengu sín færi, skoruðu tvö mörk og bæði Orri Hrafn og Tryggvi Hrafn hefðu getað breytt gangi leiksins ef þeir hefðu skorað úr sínum færum á 50. og 92.mínútu fyrir Val.

KR 2:2 Valur opna loka
90. mín. Tryggvi Hrafn Haraldsson (Valur) á skot sem er varið 90+2 Dauðfæri hjá Valsmönnum! Tryggvi fær sendingu vinstra meginn í teignum og á þrumuskot sem Simen ver mjög vel.
mbl.is