„Pirrar mig svakalega“

Kennie Chopart var svekktur yfir því að KR hafi ekki …
Kennie Chopart var svekktur yfir því að KR hafi ekki unnið leikinn. mbl.is/Óttar Geirsson

Fyrirliði KR, Kennie Chopart, átti góðan leik fyrir Vesturbæinga þegar liðið gerði 2:2 jafntefli gegn Val á heimavelli í efri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag.

KR-ingar voru heilt yfir sterkari í leiknum, fengu talsvert af færum og voru klaufar á tíðum að nýta þau ekki betur. Valsarar, sem höfðu tryggt sér Evrópusæti í síðustu umferð, voru meira að verjast en nýttu sín færi vel og fengu líka sín dauðafæri.

Kennie var spurður um fyrstu viðbrögð eftir leik.

„Þetta er rosalega pirrandi. Að þeir hafi náð skora tvö mörk gegn okkur í dag pirrar mig svakalega. Við vorum með yfirhöndina á öllum sviðum í leiknum, hvort sem það var í stöðum á vellinum eða í einvígjum.

En þannig hefur það verið svo oft í sumar, við þurfum að skora meira og verja markið okkar betur,“ sagði Daninn í samtali við mbl.is.

KR hefur tapað tvisvar stórt gegn Val í sumar og það kom ekki til greina að láta það gerast aftur á þessu tímabili.

Hvernig voru leikmenn mótiveraðir fyrir leikinn?

„Við erum alltaf vel mótiveraðir fyrir alla leiki. Við eigum núna þrjá leiki eftir og þeir geta endurspeglað tímabilið. Við eigum séns á að skila af okkur góðu tímabili og ná Evrópusæti og við ætlum að ná því. 

Í síðasta leik mættum við nýkrýndum meisturum Víkings og áttum frábæran seinni hálfleik. Í dag yfirspiluðum við liðið í öðru sæti.

Við erum með gæðin en við þurfum að vera ákveðnari inni í vítateig hvort sem við erum að sækja eða verjast,“ sagði Kennie að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is