Reyni að taka eitt skref í einu

Bryndís Arna Níelsdóttir fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í dag.
Bryndís Arna Níelsdóttir fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Bryndís Arna Níelsdóttir kom óvenjulega leið inn í landsliðshóp kvenna í fótbolta fyrir landsleikinn gegn Þýskalandi sem fer fram í Bochum á morgun.

Hún fór með 23-ára landsliðinu til Marokkó í síðustu viku og spilaði með því á föstudaginn þegar Ísland vann leik þjóðanna í Rabat, 3:2. Bryndís skoraði þar fyrsta mark Íslands í leiknum og hélt síðan beinustu leið til Þýskalands en hún var kölluð inn í hópinn vegna meiðsla Sveindísar Jane Jónsdóttur.

„Já, ég kem beint  frá Marokkó eftir langt ferðalag sem gekk samt vel, kom hingað eftir millilendingu í París þar sem ég beið í nokkra klukkutíma. Það var á fimmtudagskvöldið, daginn fyrir leikinn í Marokkó, sem ég fékk boð um að ég ætti að koma til Düsseldorf. Ég reyndi samt að hugsa bara um leikinn minn í Marokkó á föstudaginn og vera ekki að hugsa of langt fram í tímann,“ sagði Bryndís við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Düsseldorf í dag.

Hún kvaðst að sjálfsögðu vera afar ánægð með að vera komin í hópinn.

„Það er bara frábært. Fyrir mig er það mjög stórt markmið að komast í A-landsliðshópinn og það var bara geggjað að fá kallið,“ sagði Bryndís, sem er langmarkahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna í ár með 14 mörk fyrir nýkrýnda Íslandsmeistara Vals.

Hún tók undir að mörkin hennar í sumar hefðu haft mikið að segja um valið í A-landsliðið en aðspurð um hvort hún væri farin að horfa lengra, eins og t.d. til atvinnumennsku erlendis, kvaðst Bryndís reyna að hugsa bara til skamms tíma í senn.

„Ég er aðallega að hugsa um Evrópukeppnina með Val og að við náum sem lengst þar. Svo kemur kannski eitthvað í framhaldi af því. Ég reyni að taka bara eitt skref í einu.  Það væri geggjað að taka einhvern þátt í leiknum gegn Þjóðverjum á þriðjudaginn en ég reyni fyrst að standa mig vel á æfingum og svo sjáum við til hvað gerist,“ sagði Bryndís Arna Níelsdóttir.

mbl.is
Loka