Aðeins eitt tap þrátt fyrir miklar breytingar

Byrjunarlið Íslands gegn Ítalíu á EM í fyrra. Aðeins þrír …
Byrjunarlið Íslands gegn Ítalíu á EM í fyrra. Aðeins þrír af þessum leikmönnum, Karólína, Glódís og Guðrún, verða í byrjunarliðinu gegn Þýskalandi á morgun, og Sandra verður varamarkvörður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á hópi íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta undanfarna 12-13 mánuði en Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari er hér í Þýskalandi aðeins með 11 af þeim 23 leikmönnum sem skipuðu hópinn á HM á Englandi fyrir rúmu ári.

Hann kvaðst vera nokkuð sáttur við hvernig tekist hefði að vinna úr því þegar mbl.is ræddi við hann fyrir æfingu liðsins í Düsseldorf í dag.

„Það hefur gengið þokkalega vel að púsla þessu saman. Við höfum alveg náð í góð úrslit, höfum bara tapað einum leik á þessu ári, þrátt fyrir allar þessar breytingar og tilfærslur. Mér finnst við hafa tekist vel á við þetta, heilt yfir. Varnarleikurinn okkar hefur haldið alveg sömu gæðum, enda hafa minnstu breytingarnar verið þar. Það hafa verið meiri breytingar á miðsvæðinu og í framlínunni.

Leikmenn hafa hætt með landsliðinu, aðrar hætt að spila fótbolta, nokkrar eru ófrískar, og svo eru alltaf þessi tilfallandi meiðsli sem eru kannski verst fyrir okkur að eiga við. En við höfum tekist vel á við þetta og vonandi höldum við því áfram á morgun.

Ég hef fulla trú á að við getum haldið áfram að spila góða vörn og koma inn mörkum. Við erum dæmd út frá því. Hvort við skorum mörk og vinnum leikina. Þetta snýst um að vera árangursrík þegar við erum með boltann, stundum gengur það ekki, þá þurfum við að verjast og svo klára okkar sóknir þegar við fáum tækifæri til,“ sagði Þorsteinn Halldórsson.

mbl.is