Sölva Geir Ottesen, aðstoðarþjálfara Víkings úr Reykjavík, fannst 3:1-tap gegn Breiðabliki í Bestu deild karla í fótbolta ekki gefa sanngjarna mynd af leiknum þegar mbl.is náði tali af honum strax eftir leik í kvöld:
„Það finnst mér ekki. Í fyrri hálfleik eiga þeir tvö skot á markið sem að leka á einhvern hátt inn og það er okkar klaufaskapur. Við áttum fullt af fínum færum og áttum aldrei að vera undir í fyrri hálfleik.
En undir restina þá opnast þetta allt þegar við færum okkur framar. Yfir höfuð spilaðist leikurinn þannig að mér fannst við eiga fá eitthvað út úr þessu,“ sagði Sölvi.
Í síðari hálfleik var leikurinn mun jafnari eftir að þið höfðuð í raun verið betri í fyrri hálfleik. Var kominn of mikill hiti í ykkar leikmenn til að hægt væri að spila góðan fótbolta?
„Nei alls ekki. Þegar þú reynir að byrja að sækja þá oft riðlar það skipulagi þegar leikmenn fara að flýta sér. Við reyndum að sækja meira á bak við vörnina og við gerðum breytingar sem kannski virkuðu ekki alveg. Okkur fannst við vera líklegir þegar við skorum okkar mark en svekkjandi að fá þá þriðja mark þeirra í andlitið.”
Verður ekkert erfitt að gíra liðið upp í næstu leiki?
„Það verður ekkert mál. Þetta lið er samansafn af sigurvegurum og við förum í öll verkefni til að vinna. Við þurfum ekki að gera neitt extra til að gera strákana klára, þeir vilja vinna og það er eitt af því sem hefur verið unnið að í Víkinni undanfarið ár og hefur tekist vel.“
Höfðu Víkingar einhverjar áhyggjur af því að fá ekki heiðursvörð í kvöld?
„Nei það skipti okkur engu máli hvort þeir ætluðu að gera það eða ekki. Það hefði bara litið illa út fyrir þá ef þeir hefðu ekki gert það en það hefði ekki skipt okkur neinu máli.”
Er þessi hiti sem er á milli liðanna kominn til að vera?
„Það er mikil samkeppni milli þessara liða og þessi lið eru bæði að reyna sækja alla bikara sem í boði eru og ég held það hafi bara allir gaman að þessu þegar það eru svona lið í deildinni. Þetta gefur leikjunum extra krydd og gerir hlutina skemmtilegri,“ sagði Sölvi Geir í samtali við mbl.is.