Snýst ekki um að vera mikið með boltann

Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari og Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari á leik Íslands …
Ásmundur Haraldsson aðstoðarþjálfari og Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari á leik Íslands og Wales á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, sagði við mbl.is fyrir æfingu liðsins í Düsseldorf í dag að það væri ekki aðalatriði hversu mikið liðið væri með boltann í leikjum sínum.

Íslenska liðið var gagnrýnt eftir sigurleikinn gegn Wales á föstudaginn fyrir að hafa verið lítið með boltann í leiknum. Þorsteinn sagði að það skipti ekki öllu máli.

„Í sjálfu sér snýst þetta ekki um að vera með boltann í ákveðna prósentutölu í hverjum leik, heldur snýst þetta um hvað þú gerir við boltann þegar þú ert með hann, hve mikið þú skapar, og að þú sért þá að fara inn í veikleika andstæðingsins og nýta opnanirnar sem myndast,“ sagði Þorsteinn við mbl.is.

„Við verðum aldrei lið sem er með boltann 60-70 prósent á móti þessum sterku liðum. Við þurfum að vera mjög hnitmiðuð í því að búa til sóknir og ljúka sóknum þegar við erum með boltann, og það hafi einhvern tilgang að vera með hann.“

Undirbúa baráttuna við Popp

Alexandra Popp er hættulegasti sóknarmaður Þjóðverja, einn besti framherji heims undanfarin ár, og þýska liðið leitar mikið að henni í leikjum sínum. Sérstaklega með fyrirgjöfum en Popp er gríðarlega hættuleg í loftinu og skorar mikið af skallamörkum. Þorsteinn sagði að vissulega hefði verið lögð áhersla á að eiga við hana í undirbúningnum fyrir leikinn.

„Jú, auðvitað þurfum við að passa mjög vel að þeir komi ekki með sendingar inn í vítateiginn og passa ákveðnar leiðir í því. Í ákveðnum stöðum mega þær ekki geta gefið boltann fyrir, það er alveg ljóst. Popp er grimm og sterk inn í teig. Auðvitað mun það koma fyrir í leiknum að hún fái bolta til að reyna að vinna, og við þurfum að fást við það líka. Þetta er eitthvað sem við erum að undirbúa að takast á við,“ sagði Þorsteinn Halldórsson.

mbl.is
Loka