Viðbrigði að vera allt í einu reyndust

Glódís Perla Viggósdóttir tók við sem fyrirliði landsliðsins fyrr á …
Glódís Perla Viggósdóttir tók við sem fyrirliði landsliðsins fyrr á þessu ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur breyst gríðarlega á einu ári en tólf leikmenn sem voru í hópnum á EM á Englandi fyrir ári eru ekki með í hópnum fyrir leikinn gegn Þýskalandi sem fram fer í Bochum á morgun.

Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði sagði við mbl.is fyrir æfingu liðsins í Düsseldorf í dag að það væru mikil viðbrigði að missa fjölmarga reynda leikmenn úr liðinu.

„Þetta er dálítil breyting og fyrir mig eru þetta leikmenn sem hafa verið í landsliðinu alla mína tíð þar. Það eru því talsverð viðbrigði að vera allt í einu sú sem er búin að vera hérna einna lengst og með mesta reynslu. Þannig hefur þetta ekki verið hingað til, við höfum verið með reynslumikinn hóp sem hefur verið í landsliðinu í 10 ár eða meira.

Að sama skapi höfum við fengið ferskan blæ inn í hópinn með nýjum leikmönnum. Þetta eru öðruvísi leikmenn, tæknilega betri leikmenn en við höfum verið með áður, og ef við náum að blanda því saman við íslensku geðveikina þá held ég að við getum búið til gríðarlega gott lið,“ sagði Glódís við mbl.is.

Árangur með hugarfari og varnarleik

Talsvert hefur verið rætt um hversu illa íslenska liðinu gangi að halda boltanum í leikjum, eins og t.d. gegn Wales á föstudaginn þar sem það náði þó að knýja fram sigur, 1:0. Glódís sagði að tvær hliðar væru á því.

„Þetta er auðvitað atriði sem hægt er að æfa og bæta sig í en við megum ekki gleyma því að þegar við höfum náð árangri sem íslenskt landslið, þá er það með góðum varnarleik og mikilli baráttu, ekki með flottum og fínum tikitaka-fótbolta. Við höfum aldrei verið þekkt fyrir hann.

Það hafa verið hugarfarið og varnarleikurinn sem hafa fleytt okkur gríðarlega langt. Við megum ekki gleyma okkur í neikvæðri umræðu. Þetta eru hlutir sem einkenna okkur, og þegar við gerum þetta vel, vinnum við leiki. Þegar upp er staðið er það það sem við viljum. En klárlega viljum við æfa þetta og gera betur.“

Á það ekki að vera hægt núna þegar svona margir leikmenn spila með góðum liðum erlendis?

„Jú, klárlega, við þurfum kannski að skoða það, en maður breytist ekki endilega sem leikmaður þó maður fari í lið með betri leikmönnum. Við erum með þessi íslensku einkenni og komum í lið með teknískum leikmönnum sem spila betri bolta og aðlögumst því.

En við erum alltaf Íslendingar og baráttan er okkar einkenni. Sem þjóð, sem landslið og sem yngri flokkar þurfum við eftir sem áður að bæta okkur til að við getum haldið í við þróun fótboltans. Ég er sammála því. En það er rosalega skemmtilegt að upplifa þetta íslenska hjarta sem einkennir okkar leikmenn,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir.

mbl.is