Logi Ólafsson, fyrrverandi þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, setti spurningamerki við líkamlegt atgervi leikmanna íslenska kvennalandsliðsins í leik liðsins gegn Þýskalandi í 3. riðli Þjóðadeildar UEFA í Bochum í Þýskalandi í dag.
Logi, sem stýrði kvennalandsliðinu frá 1993 til ársins 1994, ásamt því að þjálfa karlalalndsliðið frá 2003 til 2005 lýsti leiknum í beinni útsendingu á Rúv ásamt Gunnari Birgissyni.
Ísland sá aldrei til sólar í leiknum, sem lauk með 4:0-sigri Þýskalands, og átti ekki eina marktilraun á rammann allan leikinn.
„Í fyrsta lagi er gríðarlegur gæðamunur á þessum liðum og það kom mjög bersýnilega í ljós í dag,“ sagði Logi í beinni útsendingu.
„Eftir að hafa átt góð ár þá erum við að dragast aftur úr og það sýnir sig hér. Þá er ég ekki bara að tala um það að halda boltanum innan liðsins heldur líka þegar kemur að líkamlegu atgervi leikmanna.
Við erum að tapa návígjum og kapphlaupum og öðru slíku. Ég vil samt sem áður taka það skýrt fram að það er ekki hægt að saka stúlkurnar um að leggja sig ekki fram því þær hafa hlaupið eins og brjálæðingar allan leikinn,“ bætti Logi við.