„Þetta eru allt leikmenn sem ég hef spilað við áður og þekki vel til en við töpuðum einfaldlega fyrir betra liði í dag,“ sagði Sandra María Jessen, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 4:0-tap liðsins gegn Þýskalandi í 3. riðli Þjóðadeildarinnar í Bochum í Þýskalandi í kvöld.
„Það er hægt að fela sig á bakvið þá staðreynd en núna er þessi leikur bara búinn. Við erum áfram með sömu markmið og gildi og við erum svo sannarlega ekki búnar að gefast upp. Það er annar leikur framundan gegn þeim, strax í næsta mánuði, á Laugardalsvelli og við ætlum að gefa þeim alvöru leik þar.
Mér fannst við ágætlega þéttar og það var lítið bil á milli leikmanna, það var því ekki vandamálið. Við töpuðum einfaldlega of mörgum návígjum, við vorum ekki nægilega grimmar og við vorum of langt frá þeim. Svo eru líka mikil gæði í þessu þýska liði og þær skoruðu flott mörk. Á sama tíma hefðum við mátt halda betur í boltann og nýta breiddina betur en það gekk ekki í dag og það er bara næstu leikur,“ sagði Sandra María.
Þýska liðið komast yfir strax á 19. mínútu þegar Klara Bühl átti fast skot utan teigs sem söng í netinu.
„Það hefði verið mjög gott að halda leiknum jöfnum aðeins lengur. Þær eru búnar að vera í basli og það var allt undir hjá þeim í leiknum. Þær þurftu að vinna í kvöld og þær mættu mjög hungraðar til leiks. Auðvitað hefðum við viljað nýta okkur það að þær eru búnar að vera í basli en svona er þetta stundum.
Eins og ég kom inn á áðan þá eru tveir stórir leikir framundan hjá okkur í október og trúin er ennþá sú sama innan leikmannahópsins. Við vitum hvað í okkur býr og við munum klárlega læra af þeim mistökum sem við gerðum í dag. Við ætlum okkur svo að taka stig af þeim á Laugardalsvellinum, það er mjög einfalt.“
Sandra snéri aftur í íslenska landsliðið á þessu ári en hún var síðast með landsliðinu í mars 2020.
„Það var gaman og þýðingarmikið fyrir mig að spila hérna. Það voru margir vinir mínir og fjölskyldumeðlimir í stúkunni í dag og það var gaman að fá að spila svona mikið í þessum leik. Ég hef gengið í gegnum ýmislegt, ég lent í mikið af meiðslum og ég er búin að ganga í gegnum barnsburð líka. Það þarf karakter til að stíga upp úr svona hlutum og það er einn af mínum styrleikum. Það er gaman að fá mínútur og traust eftir allt sem maður er búinn að leggja á sig,“ bætti Sandra María við í samtali við mbl.is.