Einhver svakalegasta dýfa sem ég hef á ævi minni séð

Ingibjörg Sigurðardóttir í varnarstöðu í leiknum í kvöld.
Ingibjörg Sigurðardóttir í varnarstöðu í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Firosportphoto

„Það er erfitt að verjast nánast samfleytt í 90 mínútur," sagði Ingibjörg Sigurðardóttir miðvörður íslenska landsliðsins við mbl.is eftir ósigurinn gegn Þjóðverjum, 4:0, í Þjóðadeildinni í fótbolta í Bochum í kvöld.

„Þær voru góðar í dag, en við hefðum örugglega átt að geta komið með einhver svör við þeirra leik. Það var erfitt að sjá það í leiknum en við héldum leikplaninu og gerðum eins vel og við gátum en það sem ég er svekktust yfir er að við leyfðum þeim að ýta aðeins of mikið í okkur og taka yfir í baráttunni, þar sem við ættum að vera yfir," sagði Ingibjörg.

„Við vildum ekki að þær fengju þetta sjálfstraust á ný akkúrat núna en svona fór það. Við verðum að taka þessu og það eru margir leikir eftir í keppninni."

Ingibjörg fékk gula spjaldið í fyrri hálfleik eftir að hafa lent í útistöðum við Alexöndru Popp, fyrirliða Þýskalands, sem lá á vellinum eftir viðskipti þeirra.

„Þetta  byrjaði á því að Selma „kjötaði“ Popp hressilega. Hún varð brjáluð og ýtti Selmu, og þá ætlaði ég ekki að leyfa henni að eiga síðasta orðið og ýtti aðeins  við henni. Þá tók hún einhverja þá svakalegustu dýfu sem ég hef á ævi minni séð og ég fékk gula spjaldið. Þetta var kannski heimskulegt af mér en á sama tíma þá þurftum við að setja smá orku í leikinn. Ég hefði verið sátt ef  Popp hefði líka fengið gula spjaldið fyrir að gera það sama við Selmu, en svona er þetta," sagði Ingibjörg Sigurðardóttir.

mbl.is