Fengu 10 á prófinu fyrir sex árum

Elín Metta Jensen leggur upp fyrsta mark Íslands í leiknum …
Elín Metta Jensen leggur upp fyrsta mark Íslands í leiknum í Wiesbaden. Dagný Brynjarsdóttir, lengst til vinstri, greip tækifærið eftir að Elín setti markvörð Þjóðverja úr jafnvægi og sendi boltann í netið. Ljósmynd/A2 Peter Hartenfelser

Þegar Ísland vann sinn eina sigur í sextán A-landsleikjum kvenna gegn Þýskalandi í undankeppni HM í Wiesbaden fyrir sex árum var það heldur betur sögulegur sigur.

Ísland varð þá fyrsta liðið til að sigra Þýskaland í 68 leikjum í undankeppni stórmóts, í 21 ár, og þýska liðið hafði á sama tíma unnið síðustu 37 heimaleiki sína í undankeppni.

Ísland vann þann 20. október 2017 sinn besta og óvæntasta sigur frá upphafi í landsleik, hvort sem rætt er um karla eða konur. Leikurinn endaði með ótrúlegum sigri íslenska liðsins, 3:2, þar sem Dagný Brynjarsdóttir skoraði tvö mörk og Elín Metta Jensen eitt fyrir Ísland sem komst í 1:0 og síðan í 3:1.

Alexandra Popp og Lea Schüller skoruðu mörk Þýskalands sem m.a. var ríkjandi Ólympíumeistari og með áskrift að verðlaunasætum á stórmótum í hátt í þrjá áratugi.

Heimalærdómurinn borgaði sig

Hallbera Guðný Gísladóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagna sigrinum í …
Hallbera Guðný Gísladóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagna sigrinum í Wiesbaden í leikslok. Ljósmynd/A2 Peter Hartenfelser

„Nú þegar umræða er í gangi um að hætta heimalærdómi í íslenskum grunnskólum þá lágu landsliðskonurnar yfir heimalærdómi frá þjálfurunum á hóteli í Wiesbaden. Þær fengu 10 á prófinu,“ skrifaði Kristján Jónsson meðal annars í grein sinni um leikinn í Morgunblaðið sem kom út daginn eftir, 21. október.

Fram kom í umfjöllun blaðsins að Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari hefði undirbúið leikmenn liðsins gríðarlega vel fyrir leikinn. „Leikurinn þróaðist nákvæmlega eins og Freysi og Ási settu upp. Við vissum því um styrkleika og veikleika þýska liðsins. Við vissum því hvar okkar tækifæri gætu legið gegn Þjóðverjum og við skiluðum okkar vinnu upp á 10. Þetta gekk eftir,“ sagði Sif Atladóttir í viðtali við Kristján í Morgunblaðinu eftir leikinn.

Sif og Dagný fengu þrjú M

Þær Sif Atladóttir og Dagný Brynjarsdóttir fengu hæstu mögulega einkunn hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leiknum, þrjú M, og þær Elín Metta Jensen, Sara Björk Gunnarsdóttir og Guðbjörg Gunnarsdóttir fengu tvö M hver.

„Freysi undirbjó okkur ógeðslega vel og sýndi okkur veikleika þeirra. Frá því við komum til Þýskalands höfðum við trú á að við gætum fengið eitthvað út úr þessum leik þótt við hefðum ekki dælt því í fjölmiðla. Það myndi líta út eins og maður væri klikkaður að mæta hingað og segjast ætla að vinna lið sem við höfum ekki skorað gegn í 30 ár,“ sagði Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður íslenska liðsins í leiknum í Wiesbaden við Morgunblaðið.

Tvær eftir frá Wiesbaden

Í íslenska landsliðinu sem mætir Þýskalandi í Bochum í dag eru aðeins tvær af þeim sem tóku þátt í sigurleiknum fræga í Wiesbaden, varnarmennirnir Ingibjörg Sigurðardóttir og Glódís Perla Viggósdóttir.

Hins vegar voru fimm í núverandi hópi Þjóðverja þátttakendur í leiknum árið 2017 og eru eflaust vel minnugir þeirra niðurlægingar. Það eru Alexandra Popp, Lisa Magull, Linda Dallmann, Lea Schüller og Kathrin Hendrich.

Ísland hefur tapað hinum fimmtán leikjunum gegn Þýskalandi í viðureignum þjóðanna. Eini leikurinn sem hefur farið fram eftir leikinn í Wiesbaden er síðari leikurinn í sömu undankeppni HM ári síðar á Laugardalsvellinum. Þjóðverjar sigruðu þá 2:0.

mbl.is