Getur vel verið að þetta hafi verið illa uppsettur leikur

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson.
Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var erfiður leikur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 4:0-tap liðsins gegn Þýskalandi í 3. riðli Þjóðadeildarinnar í Bochum í Þýskalandi í kvöld.

„Við vorum aðeins of lin í návígunum og við töpuðum of mikið af þeim til þess að geta fært liðið framar á völlinn. Það lá mikið á okkur líka og af því leiddi að við náðum aldrei að halda í boltann eða vera sterk á honum. Við mættum mjög góðu liði, sem var ógeðslega gott í dag, og þær börðu okkur einhvernvegin út úr leiknum.

Þær voru ekki að opna okkur mikið fyrsta hálftímann. Þær fengu einhverjar fyrirgjafir en mér fannst við eiga vel við þær. Fyrsta markið hefur auðvitað áhrif á leikinn en mér fannst við einfaldlega of linar með boltann. Við hefðum getað verið sterkari og við gerum okkur grein fyrir því en á sama tíma skildu leikmennirnir allt eftir á vellinum. Stundum er það bara þannig að andstæðingurinn er betri og þú þarft að gera þér grein fyrir því þegar leikurinn er flautaður af,“ sagði Þorsteinn.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir byrjaði í fremstu víglínu í dag.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir byrjaði í fremstu víglínu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætluðu að standast áhlaupið

Þjóðverjum hefur ekki gengið vel í síðustu leikjum sínum og höfðu, fyrir leik kvöldsins, aðeins unnið einn af síðustu fimm landsleikjum sínum.

„Ef við tökum mið af Danmerkurleiknum þá  voru þær í tómu basli þar og það var ákveðið andleysi í gangi í þeim leik. Það sást í leiknum í dag að þær ætluðu sér að ná í úrslit strax frá fyrstu mínútu og þær voru líka með áhorfendurna á sínu bandi. Þær voru mjög grimmar og öflugar í dag og við áttum í miklu basli með þær.

Við bjuggumst við því að þær myndu mæta kraftmiklar til leiks og við lögðum áherslu á það að standast áhlaupið fyrstu tíu mínútur leiksins. Mér fannst við vera að koma okkur inn í leikinn, hægt og rólega, en svo fáum við fyrsta markið á okkur. Kannski hafði það of mikil áhrif á okkur og gerði það að verkum að við urðum hrædd.“

Selma Sól Magnúsdóttir lék allan leikinn á miðsvæðinu hjá Íslandi.
Selma Sól Magnúsdóttir lék allan leikinn á miðsvæðinu hjá Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það segir sig sjálft

Sóknarleikur Íslands var slakur í dag og átti íslenska liðið ekki eina marktilraun allan leikinn.

„Það getur vel verið að þetta hafi verið illa sett upp og allt það en heilt yfir var þetta ekki góður leikur hjá okkur sóknarlega og það segir sig sjálft þegar að þú átt ekki eina marktilraun,“ bætti Þorsteinn við í samtali við mbl.is.

Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki í leikmannahóp Íslands vegna meiðsla.
Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki í leikmannahóp Íslands vegna meiðsla. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Loka