Þýska knattspyrnusambandið greinir frá því á heimasíðu sinni að nánast sé uppselt á leik Þýskalands og Íslands í Þjóðadeild kvenna, sem fram fer í Bochum í dag.
Leikurinn fer fram á Ruhrstadion, heimavelli Bochum, og tekur leikvangurinn alls 26.000 manns í sæti. Hefst hann klukkan 16.15 að íslenskum tíma.
Mikill áhugi er því fyrir leiknum þrátt fyrir að gengi þýska kvennaliðsins hafi verið vont undanfarið.
Miðasalan hefur tekið mikinn kipp undanfarinn sólarhring þar sem það var hvergi nærri uppselt á leikinn í gær.
„Við erum afskaplega ánægð með þann fjölda áhorfenda sem vitað er til að séu væntanlegir á leikinn. Fjöldi áhorfenda hefur verið til umræðu hjá liðinu einu sinni eða tvisvar.
Við erum virkilega ánægðar því við vitum að við erum ekki að spila besta eða árangursríkasta fótboltann í augnablikinu, en stuðningurinn er enn til staðar.
Við viljum endurgjalda stuðninginn með góðum leik og sigri. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að það verði að veruleika,“ sagði Sydney Lohmann, miðjumaður Bayern München, í samtali við heimasíðu knattspyrnusambandsins.