Skapið í pabba poppar stundum upp

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni á Kópavogsvelli í gærkvöldi.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni á Kópavogsvelli í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikill rígur hefur myndast milli Víkings úr Reykjavík og Breiðabliks undanfarin ár og mátti glögglega sjá það á samskiptum Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkings, og Óskar Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara Breiðabliks, eftir leik liðanna í Bestu deildinni í gærkvöldi.

Í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gærkvöldi voru nokkur ummæli sem Arnar og Óskar Hrafn hafa látið falla fyrr á tímabilinu rifjuð upp og sýnt frá því sem virtist vera smávegis orðaskak milli þeirra í gærkvöldi.

Arnar var gestur þáttarins í gærkvöldi og sagði:

„Mér finnst við samt alltaf fara með staðreyndir. Það er alveg rétt hjá honum að við höfum ekki unnið nægilega mörg einvígi í Evrópu og það er alveg rétt hjá mér að þeir eru búnir að tapa tólf leikjum. Þetta eru allt staðreyndir.“

„Þetta er einhvern veginn mannlegt eðli, þessi lið eru eins og börnin manns. Það er einhvern veginn mannlegt eðli að svara fyrir sig, eins barnalegt og það hljómar.

Maður þarf stundum að vera hérna...“ sagði Arnar og beit í handarbakið á sér „... til þess að vera ekki að svara alltaf öllu á þessum tímum samfélagsmiðla og ég veit ekki hvað og hvað.“

Fíla ekki þegar liðið mitt er hunsað

Hann fór svo nánar út í samskipti þjálfaranna eftir leikinn í gærkvöldi.

„Í þessu tiltekna tilfelli þá er ákveðin óskrifuð regla eftir leiki og hún er að takast í hendur almennilega og ekki svo snúa sér við og byrja að skjóta á þjálfarann, hvað þá þjálfarann sem er nýbúinn að tapa leik.

Það er bara óskrifuð regla. Það voru einhver orð látin flakka þarna. Ég er svona 99 prósent með skapið hennar mömmu, ég er mjög rólegur einstaklingur, en pabbi poppar stundum upp, þetta eina prósent.

Hann er snargeðveikur í skapinu. Ég fílaði þetta ekki og ég fíla ekki þegar verið er að hunsa liðið mitt eftir leiki, svona eins og það sem gerðist á Kópavogsvelli.“

Get svarað miklu verr

Arnari finnst sem skotin komi mestmegnis úr hinni áttinni.

„Þannig að „beefið,“ mér finnst það ekkert rosalega mikið koma frá mér. Mér finnst það í alvörunni ekki. Mér finnst ég alltaf þurfa að svara þegar það koma einhver ummæli, finnst ég þurfa að svara fyrir þau.

Bara eins og ummælin í Víkinni þegar þú ert búinn að tapa leik og fyrir leikinn. Við þekkjum alveg þessa tilfinningu. Þetta eru alveg skot og ég get alveg svarað miklu verr en ég fer ekki þá leið.

Ég trúi því og treysti að hinn almenni knattspyrnuáhugamaður veit bara alltof mikið um þessa íþrótt okkar og ég þarf ekkert að svara fyrir þetta. En mikið andskoti er þetta gaman samt,“ sagði hann einnig.

mbl.is