Enn versnar staða Eyjamanna

KA-menn fagna eftir að Jóan Símun Edmundsson, lengst til hægri, …
KA-menn fagna eftir að Jóan Símun Edmundsson, lengst til hægri, skoraði fyrsta mark leiksins. Sveinn Margeir Hauksson faðmar Ingimar Stöle sem átti stoðsendinguna. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Heil umferð er leikin í Bestu deild karla í fótbolta í dag og er einum leik lokið. KA og ÍBV áttust við í neðri hlutanum og hófst leikur liðanna kl. 16:15 á Greifavellinum á Akureyri.

Staðan fallbaráttuliðanna er sú að HK er með 26 stig, Fylkir 22, Fram og ÍBV með 21 stig en Keflavík á enn möguleika á að bjarga sér frá falli með sín 15 stig. Eyjamenn eru í hatrammri fallbaráttu og þeir bíða nú eflaust með öndina í hálsinum eftir leikjum Fram og Keflavíkur og HK og Fylkis, sem hefjast báðir kl. 19:15.

KA-menn voru fyrir leik komnir langleiðina með að tryggja sér efsta sæti neðri hlutans, 7. sætið, og vildu eflaust halda áfram að safna sigrum og stigum. Eyjamenn voru í 11. sætinu fyrir leik. Fram var sæti ofar en liðin höfðu sama stigafjölda en Fram var með betri markatölu. Sigur eða jafntefli kæmi Eyjamönnum úr fallsæti um stund a.m.k.

Það voru KA-menn sem lönduðu sigri í leiknum 2:1 og er ÍBV því enn í fallsæti.

Eftir nokkuð rólegar upphafsmínútur komu tvö mörk með stuttu millibili. Fyrst skoraði KA auðvelt mark eftir mistök í vörn ÍBV. Ingimar Stöle stal boltanum af Guðjóni Erni úti við endamörkin vinstra megin. Hann sendi fastan bolta inn á markteig þar sem Jóan Símun Edmundsson var  á auðum sjó og gat ekki annað en skorað.

Þremur mínútum síðar jafnaði ÍBV. Jón Ingason tók aukaspyrnu og plantaði hann boltanum út við stöng í markmannshornið. Steinþór Már í marki KA var illa staðsettur og seinn að átta sig. Eftir þessi tvö mörk var jafnræði með liðunum en fátt markvert gerðist fram að hálfleik. Staðan var því 1:1 þegar liðin gengu til hálfleiks.

Liðin komu nokkuð spræk til leiks í seinni hálfleik en KA fékk víti á 54. mínútu og komst í 2:1 með marki frá Hallgrími Mar Steingrímssyni. KA-menn sóttu í sig veðrið og voru líklegir til að bæta við marki í kjölfarið. Þegar leið á leikinn færðu Eyjamenn sig framar og opnaðist leikurinn við það.

Það var mikill kraftur í ÍBV á lokakaflanum og reyndu gestirnir ákaft að jafna leikinn. KA-menn sluppu nokkrum sinnum fyrir horn og gátu fagnað sætum sigri í leikslok.

KA 2:1 ÍBV opna loka
90. mín. Andri Fannar Stefánsson (KA) fer af velli
mbl.is