Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er með 3 stig af 6 mögulegum eftir fyrstu tvo leiki sína í nýrri Þjóðadeild UEFA í kvennaflokki sem hófst á föstudaginn í síðustu viku.
Ísland leikur í 3. riðli A-deildar keppninnar og situr í þriðja sæti riðilsins eftir fyrstu tvo keppnisdagana líkt og Þýskaland. Danmörk er með fullt hús stiga eða 6 stig í efsta sætinu en Wales rekur lestina án stiga.
Næstu leikir Íslands fara fram á Laugardalsvelli, gegn Danmörku 27. október og gegn Þýskalandi 31. október.
Liðið sem endar í efsta sætinu fer áfram í undanúrslit keppninnar sem fara fram í febrúar á næsta ári og þar verður einnig leikið um tvö sæti á Ólympíuleikunum sem fram fara í París næsta sumar.
Liðið sem endar í öðru sæti riðilsins leikur áfram í A-deild í undankeppni EM 2025 en liðið sem endar í þriðja sæti riðilsins fer í umspil í febrúar gegn liði úr B-deild Þjóðadeildarinnar um sæti í A-deildinni. Liðið sem endar í neðsta sæti riðilsins fellur í B-deild Þjóðadeildarinnar.
Þorsteinn Halldórsson tók við þjálfun íslenska liðsins í janúar 2021 og skrifaði hann undir nýjan samning síðasta sumar sem gildir til sumarsins 2026.
„Umræðan um það hvort skipta eigi um þjálfara verður alltaf til staðar og hún mun örugglega lifa ágætis lífi á kaffistofum landsins. Mín skoðun er hins vegar sú að á meðan þjálfarinn er við stjórnvölinn þá eigum við að standa með honum og liðinu og hvetja það til dáða.
Ég hef trú á liðinu og að þau muni snúa umræðunni ansi hressilega á jákvæðan hátt í næsta glugga,“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA í Bestu deild kvenna, í samtali við Morgunblaðið þegar hann ræddi frammistöðu íslenska liðsins í leikjunum tveimur.
Viðtalið við Jóhann Kristinn má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.