„Ég er hrærður“

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, fagnar á hliðarlínunni í kvöld.
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, fagnar á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/óttar Geirsson

„Tilfinningin er ólýsanleg,“ sagði Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur liðsins gegn Aftureldingu í úrslitum umspils um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég er ótrúlega stoltur, glaður og nánast orðlaus. Mér fannst annað liðið töluvert hugrakkara og þora að halda í boltann. Það breyttist aðeins í framlengingunni og það kom meiri kraftur í leik Aftureldingar en mér fannst við sterkari aðilinn í venjulegum leiktíma.

Ég er gríðarlega stoltur af jafnvæginu í liðinu. Við vörðumst vel og sóttum vel líka en það mikilvægasta var að við gerðum þetta saman sem lið. Menn voru með sín hlutverk á hreinu fyrir leikinn og gerðu algjörlega það sem fyrir þá var lagt,“ sagði Davíð Smári.

Stuðningsmenn Vestra fjölmenntu í Laugardalinn í dag.
Stuðningsmenn Vestra fjölmenntu í Laugardalinn í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Hvarf allt stress

Davíð Smári tók við þjálfun Vestra síðasta haust en fjöldi Vestfirðinga voru mættir á Laugardalsvöll í kvöld til þess að styðja liðið.

„Þessi stuðningur hérna í dag var ólýsanlegur. Mikið af fólkinu í stúkunni þurfti að ferðast einhverja 400 kílómetra til þess að styðja okkur sem er magnað. Ég var stressaður þegar ég var á leiðinni á völlinn en um leið og ég gekk inn á Laugrdalsvöll og sá fólkið okkar í stúkunni hvarf allt stress.

Við erum lítið bæjarfélag og lítið félag en þegar allir sameinast og róa í sömu átt þá eru áhyggjurnar engar. Ég er hrærður yfir þessu öllu saman,“ bætti Davíð Smári við í samtali við mbl.is.

Leikmenn Vestra fagna með bikarinn.
Leikmenn Vestra fagna með bikarinn. mbl.is/óttar Geirsson
mbl.is
Loka