Mætum tvíefldir til leiks á næsta ári

Oliver Jensen sækir að Vestramönnum í dag.
Oliver Jensen sækir að Vestramönnum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég er fyrst og fremst svekktur,“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap liðsins gegn Vestra í úrslitum umspils um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við hittum ekki á góðan leik og við hefðum viljað gera betur. Á sama tíma vil ég óska Vestra til hamingju með sigurinn. Þeir eru með frábært lið og eiga þetta svo sannarlega skilið. Við vorum vel undirbúnir og þetta er annar leikurinn í sumar sem við skorum ekki í, af einhverjum 25 leikjum.

Þetta þýðir bara það að við þurfum að leggja ennþá meira á okkur næsta sumar og gera ennþá betur til þess að fara upp. Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta tap muni sitja eitthvað í okkur, við höfum sjö mánuði til þess að undirbúa okkur fyrir næsta tímabil og við verðum klárir í slaginn þegar þar að kemur,“ sagði Magnús Már.

Leikmenn Aftureldingar fyrir leikinn.
Leikmenn Aftureldingar fyrir leikinn. mbl.is/Óttar Geirsson

Frábært að spila hérna í dag

Afturelding hafnaði í 2. sæti deildarinnar í deildarkeppninni en fjöldi Mosfellinga lagði leið sína í Laugardalinn í dag til þess að styðja liðið.

„Þetta var geggjað hérna í dag og ég held að það hafi fáir leikmenn liðsins spilað fyrir framan 3.000 manns áður og það er ólíklegt að þeir muni gera það aftur. Það var frábært að spila hérna og ég held að það hafi enginn leikur í sögu 1. deildarinnar fengið jafn mikla athygli og þessi leikur hérna í dag. Það var ógeðslega gaman að taka þátt í þessu og við mætum tvíefldir til leiks á næsta ári,“ sagði Magnús Már í samtali við mbl.is.

Stuðningsmenn Aftureldingar í stúkunni á Laugardalsvelli.
Stuðningsmenn Aftureldingar í stúkunni á Laugardalsvelli. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is