Stjarnan tryggði sér Evrópusæti með sigri á Víkingi

Erlingur Agnarsson sækir að Örvari Loga Örvarssyni í kvöld.
Erlingur Agnarsson sækir að Örvari Loga Örvarssyni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan lyfti sér upp í þriðja sæti Bestu deildar karla í knattspyrnu og gulltryggði sér um leið endanlega Evrópusæti með frábærum sigri á Íslands- og bikarmeisturum Víkings í Garðabæ í kvöld, 3:1.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af ógnarkrafti og komust yfir strax á fimmtu mínútu leiksins. Örvar Logi Örvarsson komst þá upp að endamörkum vinstra megin og fann Eggert Aron Guðmundsson í teignum sem kláraði frábærlega í fjærhornið. Víkingur hafði reyndar fengið fyrsta færi leiksins eftir einungis nokkrar sekúndur en Danijel Dejan Djuric brást bogalistin úr teignum eftir mistök í öftustu línu Stjörnunnar.

Tveimur mínútum eftir mark Eggerts var Stjarnan svo búin að tvöfalda forystuna og var markið af dýrari gerðinni. Emil Atlason fékk boltann þá á hægri kantinum og renndi honum í hlaupaleiðina hjá Hilmari Árna Halldórssyni sem kom af miðsvæðinu í gengum miðja vörn Víkings. Hilmar sá að Þórður Ingason var mjög framarlega í marki Víkings og lyfti boltanum stórkostlega yfir hann af um 35 til 40 metra færi. Þetta var algjörlega frábær afgreiðsla hjá Hilmari.

Eftir annað markið komust Víkingar betur inn í leikinn og fengu fjölmörg færi þar til flautað var til hálfleiks. Danijel Dejan Djuric, Erlingur Agnarsson, Helgi Guðjónsson og Nikolaj Hansen voru allir aðgangsharðir og fengu góð færi en annaðhvort hittu þeir ekki markið eða settu boltann beint á Árna Snæ Ólafsson í marki Stjörnunnar. 

Stjarnan leiddi því með tveimur mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Eftir rétt rúmlega klukkutíma leik skoraði Stjarnan svo þriðja mark sitt í leiknum og aftur var það glæsilegt. Emil setti boltann þá á Eggert rétt utan teigs sem hótaði skotinu með hægri áður en hann færði boltann á vinstri fótinn og negldi honum síðan í samskeytin. Þetta var algjörlega frábært mark hjá Eggerti.

Á 78. mínútu náði Víkingur að klóra í bakkann. Hilmar Árni átti þá slaka sendingu til baka sem endaði hjá Nikolaj Hansen. Hann sneri og var snöggur að finna Helga Guðjónsson við vítateigslínuna. Helgi var mjög yfirvegaður í færinu og kláraði að lokum mjög vel fram hjá Árna Snæ.

Víkingur reyndi að minnka muninn enn frekar en Stjörnumenn vörðust vel og gáfu fá færi á sér. Að lokum fór það svo að Stjörnumenn tryggðu sér góðan sigur því fleiri urðu mörkin ekki.

Eins og áður sagði gulltryggði Stjarnan endanlega Evrópusæti með sigrinum en liðið var þó svo gott sem búið að tryggja það fyrir leik vegna markahlutfalls. Liðið er nú í þriðja sæti deildarinnar með 43 stig þegar ein umferð er eftir, tveimur stigum á undan Breiðabliki og sex stigum á undan FH og KR. Tapið hefur lítil áhrif á Víking sem er langefst allra liða í deildinni og löngu búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Stjarnan 3:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Emil Atlason (Stjarnan) á skot í stöng Þarna mátti engu muna! Emil sleppur inn fyrir en Halldór Smári verst stórkostlega og kemur sér fyrir skotið. Þessi hefði líklega verið inni ef ekki hefði verið fyrir Halldór þarna.
mbl.is
Loka