Þróaðist út í leik sem við kunnum ekki að spila jafn vel og Stjarnan

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var nokkuð sáttur með frammistöðu sinna manna þrátt fyrir tap gegn Stjörnunni, 3:1, í næstsíðustu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabæ í kvöld.

„Mér fannst þetta bara skemmtilegur leikur. Ég hef eiginlega yfir voða litlu að kvarta nema kannski færanýtingunni okkar í fyrri hálfleik. Mér fannst fyrri hálfleikurinn bara geggjaður hjá okkur og í seinni hálfleik þróaðist þetta svolítið út í leik sem að við kunnum ekki að spila jafn vel og Stjarnan, ég verð bara að viðurkenna það. Þetta var svona opinn leikur, ég kalla þetta oft ping-pong leik þar sem þetta er fram og til baka.

Við náum ekki að setja þriðja markið í leiknum en þeir ná því og því fór sem fór. Ég hef samt sem áður yfir voða litlu að kvarta, ég hefði vanalega verið brjálaður en einhvern veginn fannst mér þetta bara skemmtilegur leikur og góður hjá báðum liðum.“

Víkingur fékk fjölmörg færi í leiknum en illa gekk að koma boltanum í netið. Fyrir utan það spilaði liðið nokkuð vel og bar ekki mörg merki þess að hafa að litlu sem engu að keppa.

„Það var fínt hungur í okkur. Það eina sem ég sá öðruvísi í kvöld frá öðrum leikjum var að við vorum ekki klínískir, í báðum teigum. Fyrsta markið var mjög óvanalegt hjá okkur að fá á okkur en annað markið er náttúrlega bara algjör snilld. 

Það verður skemmtilegt að sjá tölfræðina úr þessum leik miðað við hvað við áttum margar fyrirgjafir. Vanalega erum við mættir í þessa bolta og svo voru spyrnurnar í föstu leikatriðunum okkar óvenju slappar. Það var kannski það eina sem við vorum smá þunnir í. Þessi atriði sem hafa verið virkilega sterk hjá okkur í sumar.“

Það vantaði sterka leikmenn hjá Víkingi í leiknum en þeir Ingvar Jónsson, Gunnar Vatnhamar, Matthías Vilhjálmsson, Ari Sigurpálsson og Birnir Snær Ingason voru allir utan hóps. Þá voru þeir Pablo Punyed og Aron Elís Þrándarson meðal varamanna.

„Það eru nokkrir meiddir og svo eru einhverjir sem hefðu spilað ef þetta hefði verið einhver úrslitaleikur. Þá hefðu menn bara teipað sig og bitið á jaxlinn. Það er algjör óþarfi að taka sénsinn núna og líka bara fínt að gefa mönnum tækifæri sem hafa kannski fengið fáar mínútur. Þá sjáum við hvar við stöndum með þá og hvað þarf að bæta svo þeir verði klárir á næsta ári. Við fengum fullt út úr þessu en við mættum með sterkt lið í dag og mættum öðru sterku liði.“

Nokkrir ungir leikmenn voru á varamannabekk Víkings í leiknum en þeir komu ekki við sögu í leiknum. Arnar segir að það hafi alveg komið til greina að setja þá inn á.

„Mann langaði til þess en svo veit maður einhvern veginn aldrei hvort þetta sé rétti tímapunkturinn eða ekki. Mér fannst það ekki alveg eiga við í kvöld miðað við hvernig andrúmsloftið var. Við vorum farnir að verða svolítið opnir og þá er erfitt að láta unga stráka inn á og biðja þá um að gera eitthvað en jú, mig dauðlangaði til þess.“

mbl.is
Loka