Tók sénsinn og það virkaði

Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar.
Hilmar Árni Halldórsson, leikmaður Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hilmar Árni Halldórsson var annar markaskorara Stjörnunnar í sigri á Víkingi, 3:1, í næstsíðustu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabæ í kvöld. Með sigrinum gulltryggði Stjarnan endanlega Evrópusæti fyrir næsta tímabil.

„Tilfinningin er bara góð. Þetta var mjög áhugaverður og skemmtilegur fótboltaleikur eins og vill oft verða á móti þessu liði. Það er bara virkilega gaman að spila svona alvöru fótbolta hérna.

Ég átti von á því að þeir myndu bara koma og spila sinn leik, vera ákveðnir og gera allt sem þeir gera vel, eins og þeir gerðu. Úr varð bara fótboltaskemmtun fannst mér.“

Hilmar Árni skoraði algjörlega frábært mark í leiknum þegar hann lyfti boltanum yfir Þórð Ingason, markvörð Víkings, af um 40 metra færi. 

„Við náðum góðri skyndisókn, einni af nokkrum í fyrri hálfleik. Við komumst upp hægra megin og Emil finnur mig í svæðinu. Ég náði að lyfta honum yfir markmanninn. 

Eins og oft er á þessu tempói þegar maður er að spila á móti svona liði verður maður að hugsa hratt. Ég tók sénsinn og það virkaði.“

Liðsfélagi Hilmars, Emil Atlason, hefur skorað 17 mörk í sumar og vantar einungis tvö til viðbótar til að jafna hið víðfræga markamet. Samherjar Emils voru heldur betur duglegir að leita að honum undir lok leiks til að reyna að aðstoða hann við að ná metinu.

„Ég fékk eitt tækifæri til þess og það kom aldrei neitt annað til greina en að reyna að finna hann. Hann var óheppinn þar, setti hann í stöngina.“

mbl.is
Loka