„Það munaði klárlega um Sveindísi Jane í þessum leikjum enda er hún frábær leikmaður,“ sagði Ásthildur Helgadóttir, fyrrverandi fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í Fyrsta sætinu þegar rætt var um íslenska landsliðið.
Sveindís Jane Jónsdóttir lék ekki með íslenska liðinu í leikjunum gegn Wales og Þýskalandi í Þjóðadeildinni á dögunum vegna meiðsla og munaði mikið um hana.
„Það hefur hins vegar verið þannig, undanfarið, að hún hefur verið til staðar og við þurfum að skapa aðstæður sem henta henni vel,“ sagði Ásthildur.
„Við þurfum að skapa aðstæður fyrir hana þar sem hún getur farið einn á einn, snúið í átt að marki og við þurfum að leggja leikina upp þannig að styrkleikar bestu leikmanna liðsins nýtist sem best,“ sagði Ásthildur meðal annars.