Knattspyrnumaðurinn Alex Davey hefur sagt skilið við ÍA, eftir að hafa leikið með liðinu frá árinu 2021. Skotinn, sem er 28 ára varnarmaður, kom í gegnum unglingaakademíu enska stórliðsins Chelsea.
Davey lék 28 leiki með ÍA í efstu deild og skoraði í þeim tvö mörk. Hann lék ekkert með ÍA á nýliðinni leiktíð vegna meiðsla og þá lék hann aðeins níu leiki með ÍA á síðustu leiktíð.
„Við óskum Alex alls hins besta við að koma ferli sínum aftur á stað en hann hefur nýtt sumarið mjög vel til endurhæfingar og var óðum að ná aftur fyrri styrk,“ segir m.a. í yfirlýsingu ÍA.