Fjórða sæti og beðið eftir Tékkunum í kvöld

Joao Cancelo reynir að komast fram hjá Willum Þór Willumssyni …
Joao Cancelo reynir að komast fram hjá Willum Þór Willumssyni og Jóni Degi Þorsteinssyni í leik Portúgals og Íslands í gærkvöld. AFP/Patricia De Melo Moreira

Það eina sem var ekki á hreinu fyrir lokaumferð J-riðils undankeppni EM karla í fótbolta í gærkvöld var hvort Ísland eða Bosnía myndi enda í fjórða sæti riðilsins. Og það skipti í sjálfu sér litlu máli, nema fyrir heiður beggja þjóða

Ísland hreppti fjórða sætið þar sem Bosnía tapaði 1:2 fyrir Slóvakíu á heimavelli. Lúxemborg vann Liechtenstein 1:0 á útivelli og kom á óvart í riðlinum með því að ná þriðja sæti.

Ísland er samt enn með í baráttunni um sæti á EM en það skýrist í kvöld hvort íslenska liðið fær sæti í tólf liða umspilinu í mars þar sem leikið verður um þrjú síðustu sætin á EM 2024 í Þýskalandi.

Þar er það viðureign Tékklands og Moldóvu sem hefur mest að segja en liðin mætast í hreinum úrslitaleik um sæti á EM. Tékkar eru á heimavelli og þeim nægir jafntefli, sem myndi gulltryggja Íslandi umspilssæti.

Ef Moldóva vinnur leikinn og kemst á EM þarf Ísland að treysta á að Úkraína vinni Ítalíu og komist á EM.

Röð liða í Þjóðadeild karla 2022-23 ræður því hvaða þjóðir komast í umspilið en þar endaði Ísland í sjöunda sæti af  sextán liðum B-deildar. Sex efstu lið B-deildar eru þegar örugg með sæti á EM eða í umspili þannig að Ísland er næsta lið inn ef úrslit verða hagstæð í kvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka