„Hún er að komast hægt og rólega á sinn stað,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, um miðvörðinn Natöshu Anasi-Erlingsson, leikmann Brann, á fréttamannafundi í dag.
Natasha hefur töluvert spilað með Brann að undanförnu eftir að hafa verið stærstan hluta síðasta tímabils frá vegna meiðsla. Hún er hins vegar ekki í íslenska landsliðshópnum fyrir tvo leiki gegn Serbíu í umspili um sæti í A-deild Þjóðadeildar UEFA síðar í mánuðinum.
„Hún er að vinna sig hægt og rólega inn í Brann-liðið og maður á alveg von á því og vonar að hún fari að byrja fleiri leiki. Þá gerir hún ennþá meira tilkall til þess að vera valin,“ hélt Þorsteinn áfram.
Hefur hann verið ánægður með þá leikmenn sem spila sömu stöðu og Natasha.
„Við höfum rætt það áður að við höfum verið vel sett með miðverði. Allir þeir miðverðir sem eru í liðinu í dag eru góðir og hafa verið að standa sig vel. Við höfum ekki verið að fá mikið af mörkum á okkur síðastliðið ár.
Varnarleikurinn okkar hefur verið sterkur. Ég treysti þeim leikmönnum sem verið hafa undanfarið í þeim þætti leiksins að gera áfram vel þar,“ útskýrði landsliðsþjálfarinn.