Það gefast ekki betri tækifæri en þetta

Jóhann Berg Guðmundsson vonast til að geta spilað á þriðjudaginn.
Jóhann Berg Guðmundsson vonast til að geta spilað á þriðjudaginn. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, segir að Ísland eigi ekki að þurfa að óttast öflugt lið Úkraínu í úrslitaleik liðanna á þriðjudag á meðan liðsheildin sé til staðar.

Liðin leika um sæti á EM 2024 í Wroclaw í Póllandi á þriðjudagskvöldið en Ísland vann Ísrael, 4:1, í undanúrslitum á fimmtudag og Úkraína vann Bosníu, 2:1.

„Það eru mikil einstaklingsgæði í þeirra liði og við þurfum að passa vel upp á það. Þeir eru með snögga leikmenn sem spila í góðum deildum. Framherjinn þeirra frá Girona er búinn að skora ansi mikið af mörkum og svo er Mudryk gríðarlega hættulegur á kantinum, eins og fleiri leikmenn, en við erum líka með frábæra leikmenn sem spila á háu getustigi, og gera gríðarlega vel í sínum liðum þannig að við eigum ekki að vera hræddir við nein einstaklingsgæði á meðan við spilum sem lið.

Öðruvísi andrúmsloft í Wroclaw

Á meðan við verjumst sem lið og sækjum sem lið eigum við frábæra möguleika," sagði Jóhann Berg við mbl.is á hóteli landsliðsins í Búdapest í dag.

Jóhann Berg Guðmundsson á æfingu í Búdapest.
Jóhann Berg Guðmundsson á æfingu í Búdapest. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„En auðvitað verður andrúmsloftið öðruvísi í Wroclaw. Það verða klárlega mun fleiri stuðningsmenn á bandi heimaliðsins í þessum leik en var hjá Ísrael. Við erum að fara á stóran og mikinn völl, og það er líka eitthvað sem við þurfum að læra á. Passa að spennustigið fari ekki of hátt, og heldur ekki of lágt, helst halda því í miðjunni, og það er eitthvað sem við eldri leikmennirnir getum hjálpað þeim yngri með að gera.

En það er frábært að vera í þessari stöðu. Við erum 90 mínútum og kannski framlengingu og vítakeppni frá því að komast á stórmót og það gefast ekki betri tækifæri en þetta," sagði Jóhann.

Einn leikur, og við erum komnir þangað

Það veist þú allt um eftir að hafa spilað á EM og HM!

„Já, það væri gríðarlega spennandi að ná þriðja mótinu, ég myndi gera margt til að upplifa aftur stórmót. Það er eitthvað það besta sem hefur gerst á ferli okkar sem fórum þangað. Það er magnað afrek að hafa gert það, við héldum kannski að það myndi ekki gerast aftur en svo fáum við þetta tækifæri, sem er frábært. Einn leikur, og við erum komnir þangað.

Fyrir yngri leikmennina okkar yrði það gríðarlega mikilvægt að komast á stórmót og fá að njóta þess að vera þar. Það gæti gert frábæra hluti fyrir þeirra feril, mörg félög skoða leikmenn á svona stórmótum og þar gætu því opnast dyr sem annars opnast ekki. En til þess að komast þangað þurfum við að vinna Úkraínu og það verður erfitt," sagði Jóhann.

Gamla kerfið virkaði vel

Íslenska liðið sýndi mikinn karakter í leiknum gegn Ísrael, sneri honum sér í hag eftir að hafa lent undir, og Jóhann tók undir það.

„Algjörlega, ég er sammála því, og svo höfum við verið að finna okkar kerfi. Við breyttum nokkrum sinnum í undankeppninni meðan við vorum að leita að því en svo erum við komnir í gamla kerfið okkar, 4-4-2, sem Ísland er þekkt fyrir. Það virkaði vel gegn Ísraelsmönnum og vonandi líka gegn Úkraínu, þó það sé töluvert betri andstæðingur.

Ég sé klárlega að við eigum nokkuð inni og nú fara næstu dagar í að verða alveg klárir á þriðjudagskvöldið og með allt upp á tíu, hvernig þeir spila og hvernig við ætlum að spila, og ef það gengur eftir þá hef ég engar áhyggjur af því að við getum komist áfram," sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert