Man ekki eftir því að hafa skorað þrennu áður

Kristrún Rut Antonsdóttir, til vinstri, í leik Þróttar og Tindastóls.
Kristrún Rut Antonsdóttir, til vinstri, í leik Þróttar og Tindastóls. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kristrún Rut Antonsdóttir, leikmaður Þróttar, var afar sátt eftir 4:2 sigur liðsins gegn Tindastóli í Bestu deild kvenna í Laugardalnum í dag.

Kristrún gerði þrennu í leiknum en fyrir leikinn hafði Þróttur aðeins skorað þrjú mörk í deildinni í sex leikjum.

„Ég verð að viðurkenna það að mér líður bara mjög vel. Það er mikill léttir að fá fyrstu þrjú stigin í sumar. Bara geggjað,“ sagði Kristrún Rut við blaðamann mbl.is strax eftir leik.

En þetta byrjaði ekki vel hjá ykkur í dag en svo breyttist allt um miðjan fyrri hálfleikinn. Hvað gerðist eiginlega hjá ykkur?

„Það er búið að vera ansi erfitt hjá okkur síðustu vikur. Sjálfstraustið var svo sannarlega ekki í botni og það var bara þannig að þær hömruðu aðeins á okkur í upphafi leiks og við duttum aðeins niður en á þessum tímapunkti fundum við bara taktinn. Við erum með miklu stærri karakter heldur en þetta og við bara komum saman sem lið með virkilega góðan anda og við náðum að byggja á því,“ bætti Kristrún við.

Þrenna hjá þér í dag. Er það ekki nokkuð ljúft?

„Jú, heldur betur. Ég held bara að þetta sé mín fyrsta þrenna. Ég man ekki eftir því að hafa skorað þrjú mörk í leik áður. Betra er seint en aldrei,“ sagði Kristrún Rut með bros á vör að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert