Ja - ljótt var það

Róbert Frosti Þorkelsson sækir að marki Þórs í kvöld.
Róbert Frosti Þorkelsson sækir að marki Þórs í kvöld. mbl.is/Kristín Hallgrímsdóttir

Stjarnan er komin í undanúrslit bikarkeppni karla í fótbolta. Liðið lagði Þórsara 1:0 á Þórsvellinum í kvöld og kom sigurmarkið í uppbótatíma.

Eins og það væri ekki nógu sárt og svekkjandi fyrir Þórsara þá var markið bara gjöf frá Aroni Birki Stefánssyni markverði þeirra. Hann missti auðveldan bolta frá sér og potaði Róbert Frosti Þorkelsson honum í markið.

Fyrri hálfleikurinn í kvöld var með daufasta móti. Stjarnan var töluvert meira með boltann enn lengi framan af enduðu þeirra sóknir með löngum sendingum aftur fyrir endamörk. Þórsarar fundu sig ágætlega og gáfu sér tíma í sínar sóknir. Bar það stundum ávöxt í ágætis færum þótt ekki tækist þeim að skora. Ingimar Arnar Kristjánsson var einstaklega þefvís á samspil eða færi við teig Stjörnumanna. Fékk hann líklega besta færi fyrri hálfleiks en þá hitti hann ekki markið.

Helsta ógn Stjörnunnar kom í gegn um Óla Val Ómarsson í hægri bakvarðarstöðunni. Var hann afar frískur og sýndi oft góða takta. Átti hann bestu marktilraun Stjörnunnar í fyrri hálfleik. Náði hann viðstöðulausu þrumuskoti eftir að boltinn barst til hans úr vítateig Þórs. Boltinn hefði líklega endað í netinu ef hann hefði ekki hitt ennið á Þórsaranum Rafael Victor.

Það má svo segja að seinni hálfleikurinn hafi lengstum verið áframhald af því sama, nema að sá hálfleikur var enn daufari en sá fyrri. Það var svo á lokaandartökum uppbótatímans sem boltinn skvettist inn í markteig Þórs og Aron Birkir gerði sín mistök.

Hjá Stjörnunni voru Óli Valur og Guðmundur Kristjánsson bestu menn en hjá Þór voru nokkrir að spila þéttan og góðan leik. Ingimar Arnar var alltaf líklegur til að gera eitthvað og táningurinn Egill Orri var sprækur.

Þór 0:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Helgi Fróði Ingason (Stjarnan) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert